Handbolti

HK í úr­slita­keppnis­sæti eftir sigur á Stjörnunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Díana Kristín og stöllur unnu góðan sigur í kvöld.
Díana Kristín og stöllur unnu góðan sigur í kvöld. vísir/bára

HK er komið upp í fjórða sæti Olís-deildar kvenna eftir 32-28 sigur á Stjörnunni á heimavelli í kvöld. Leikurinn var fyrsti leikur 14. umferðar Olís-deildar kvenna.

Jafnræði var með liðunum framan af en eftir stundarfjórðung leiddu svo heimastúlkur með þremur mörkum, 8-5.

Þær héldu þeirri forystu inn í hálfleikinn og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 16-13. Þrátt fyrir áhlaup Stjörnunnar í síðari hálfleik stigu heimastúlkur ekkert af bensíngjöfinni og unnu að lokum fjögurra marka sigur.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tíu mörk úr ellefu skotum hjá HK og Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir bætti við sjö mörkum. Sara Sif Helgadóttir varði 12 skot (35% markvarsla).

Hjá Stjörnunni var Stefanía Theodórsdóttir með átta mörk en þær Dagný Huld Birgisdóttir, Arna Þyrí Ólafsdóttir og Karen Tinna Demian skoruðu fjögur mörk hver.

HK er í 4. sæti deildarinnar með fjórtán stig en Stjarnan er í því þriðja með fimmtán. Fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppni en leiknar eru 21 umferð í deildarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×