Handbolti

Fyrirliðarnir hittust eftir leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
mynd/instagram-síða guðjóns vals

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðið í fótbolta, gerði sér ferð til Malmö í gær til að horfa á íslenska handboltalandsliðið spila við Portúgala á EM 2020.

Aron tók beint sex tíma flug frá Katar, þar sem hann leikur með Al Arabi, og til Kaupmannahafnar. Þaðan tók hann lest yfir til Malmö.

Bróðir Arons, Arnór Þór, leikur með handboltalandsliðinu. Hann skoraði eitt mark í leiknum í gær sem Ísland vann, 28-25.

„Það er frídagur í vinnunni hjá mér og ég ákvað því að skella mér og styðja Adda bróður. Ég hef alltaf reynt að ná leikjum hjá honum. Ég vil styðja hann eins og hann styður mig á stórmótum,“ sagði Aron við Vísi fyrir leik.

Eftir leikinn hitti Aron fyrirliða handboltalandsliðsins, Guðjón Val Sigurðsson. Sá síðarnefndi birti mynd af þeim á Instagram ásamt syni sínum, Jasoni.

Guðjón Valur átti frábæran leik í gær. Hann skoraði fimm mörk úr fimm skotum og stal boltanum fimm sinnum.

Eftir leikinn fór Aron aftur til Katar. Hann mun þó eflaust fylgjast áfram með leikjum Íslands enda mikill handboltaáhugamaður.

Aron þótti efnilegur handboltamaður og lék m.a. nokkra leiki með meistaraflokki Þórs á Akureyri áður en hann ákvað að einbeita sér að fótboltanum.


Tengdar fréttir

Uppgjör Henrys: Ekki dauðir enn

Ólympíudraumurinn lifir hjá strákunum okkar eftir magnaðan sigur, 28-25, á spútnikliði Portúgal. Frábærlega útfærður leikur hjá íslenska liðinu skilaði þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×