Handbolti

Björgvin Páll: Síðasta ár gerði mig að sterkari manneskju og handboltamanni

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Björgvin Páll einlægur í viðtali við íþróttadeild.
Björgvin Páll einlægur í viðtali við íþróttadeild. vísir/andri marinó

Björgvin Páll Gústavsson brotnaði niður á síðasta stórmóti og gekk í gegnum mikið síðasta árið. Hann hefur komið sterkari til baka á EM þar sem hann hefur verið frábær.

„Ég held að það hafi verið hollt fyrir mig að detta út úr liðinu og þjálfarinn velur þá sem eru bestir hverju sinni. Það er hollt fyrir alla. Ég þurfti líka að kúpla mig út og hugsa aðeins um sjálfan mig. Það var hollt fyrir mig og liðið að ég færi aðeins út,“ segir Björgvin Páll en hann lagði allt á borðið í bók sinni, Án filters, sem kom út fyrir jólin. Hann er því mættur endurnærður.

„Þetta hjálpaði mér mikið og bókin kom eftir að ég brotlenti á síðasta móti. Allt ferlið gerði mig að sterkari manneskju og handboltamanni. Ég er með þykkari skráp núna. Ég er á stað þar sem mér líður betur á vellinum og það er skemmtilegra. Ég er að njóta mín miklu meira.“

Björgvin hefur alltaf verið einn af sterkari karakterum liðsins og maður tekur eftir því að það er meira gaman hjá honum núna eftir allt sem á undan er gengið.

„Þetta er allt bara ástríða og gleði. Ég er mikil tilfinningavera og næ að halda ró minni. Ég er að halda orkunni í skefjum og er ekki að eyða henni í rugl. Tomas Svensson markmannsþjálfari gerir vel í að halda mér á jörðinni og Gunni líka,“ segir markvörðurinn en þeir sem efuðust um að það hafi verið rétt að taka Björgvin með á mótið hafa fengið að éta hatt sinn.

„Þetta hefur gengið vel hjá okkur og gaman að sjá Viktor Gísla standa sig svona vel. Það gefur mér mikið. Hann er yndisleg manneskja og við bökkum hvorn annan vel upp.“

Markvörðurinn ákvað líka fyrir jól að koma heim næsta sumar og það virðist einnig hafa haft jákvæð áhrif á hann.

„Ég varð betri markmaður síðast heima og ég á án gríns tíu plús ár eftir ef skrokkurinn leyfir og mér líður að það verði þannig. Mér líður betur andlega á vellinum sem og utan vallar og ég fæ alls konar pepp sem gefur mér góða orku.“

Eftir tapið gegn Slóveníu náðu strákarnir að hlaða rafhlöðurnar og komu mjög kröftugir í leikinn gegn Portúgal.

„Tapleikirnir voru ekki lélegir en í Slóvenaleiknum held ég að við höfum farið að efast um hvað við erum ógeðslega góðir. Er við erum andlega rétt stilltir þá erum við virkilega góðir. Við erum að stilla strengina og ef liðið væri í svona einn og hálfan mánuð þá værum við helvíti góðir í restina,“ segir Björgvin léttur.

Klippa: Árið sem breytti Björgvini Páli

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×