Handbolti

Markatala Íslands er -33 í lokaleikjum síðustu sex stórmóta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Guðjón Valur Sigurðsson er fyrirliði íslenska landsliðsins. Getty/Uwe Anspach

Íslenska handboltalandsliðið endaði Evrópumótið í gærkvöldi með því að steinliggja á móti Svíum og þetta mót var því endasleppt hjá íslenska liðinu eins og öll stórmót liðsins undanfarin ár.

Það eru liðin sex ár síðan að íslenska karlalandsliðið í handbolta endaði stórmót á jákvæðum nótum því lokaleikur liðsins frá og með HM í Katar árið 2015 hefur aðeins boðið á svekkjandi töp.

Það sem meira er að lokaleikir þessara sex stórmóta hafa tapast með samtals 33 mörkum eða 5,5 mörkum að meðaltali í leik.

Síðasta mót sem endaði á sigri var EM í Danmörku árið 2014 þar sem íslensku strákarnir unnu eins marks sigur á Pólverjum í leiknum um fimmta sætið, 28-27.

Íslenska liðið var þá fjórum mörkum undir í byrjun seinni hálfleiksins en kom til baka og tryggði sér sigur með því að skora tvö síðustu mörkin. Rúnar Kárason skoraði sigurmarkið en Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur og maður leiksins með átta mörk úr tíu skotum og 5 stoðsendingar.

Íslenska liðið hefur ekki aðeins tapað lokaleiknum sínum á síðustu þremur stórmótum því á þeim öllum hafa strákarnir tapað að minnsta kosti tveimur síðustu leikjunum sínum.

Markatala Íslands í tveimur síðustu leikjum sínum á síðustu fimm stórmótum er síðan -52 sem er allt annað en falleg sjón.

Allt bendir til þess að íslenska liðið hafi hreinlega ekki breidd né burði til að halda út svona erfið mót og liðið sé alltaf orðið bensínlaust í lokaleikjum sínum.

Síðasti leikur íslenska handboltalandsliðsins á síðustu stórmótum:

EM 2020: 7 marka tap á móti Svíþjóð (25-32)

HM 2019: 3 marka tap fyrir Brasilíu (29-32)

EM 2018: 3 marka tap fyrir Serbíu (26-29)

HM 2017: 6 marka tap fyrir Frakklandi (25-31)

EM 2016: 9 marka tap fyrir Króatíu (28-37)

HM 2015: 5 marka tap fyrir Danmörku (25-30)

Síðustu tveir leikir íslenska handboltalandsliðsins á síðustu stórmótum:

EM 2020: 2 töp, markatala: -10

HM 2019: 2 töp, markatala: -12

EM 2018: 2 töp, markatala: -10

HM 2017: 1 tap, 1 jafntefli, markatala: -10

EM 2016: 2 töp, markatala: -10




Fleiri fréttir

Sjá meira


×