Handbolti

Gísli Þorgeir skrifar undir hjá Magdeburg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson í viðtali við Youtube-síðu Magdeburgar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í viðtali við Youtube-síðu Magdeburgar. Mynd/Youtube/SC Magdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson verður áfram í þýsku bundesligunni þótt að Kiel hafi sagt upp samningi hans. SC Magdeburg tilkynnti um komu hans í dag.

Gísli skrifar undir samning við Magdeburg sem er út þetta tímabil til að byrja með. Gísli er orðinn leikmaður Magdeburg og getur því spilað með liðinu þegar hann er leikfær.

Það kom mörgum á óvart þegar Kiel sagði óvænt upp samningi Gísla á dögunum en hann var þá að vinna sér til baka eftir önnur axlarmeiðsl sín á stuttum tíma.

Gísli var búinn að vinna sér sæti í íslenska landsliðinu en gat ekki verið með á EM í ár eftir að hann meiddist á öxl fyrr í sumar.



Gísli er uppalinn FH-ingur og verður 21 árs í sumar. Hann kom til Kiel sumarið 2018. Gísli hefur leikið 23 leiki með A-landsliði Íslands og skorað í þeim 32 mörk. Hann skoraði 7 mörk í 8 leikjum á HM í fyrra.

Bennet Wiegert þjálfar lið Magdeburgar en aðstoðarmaður hans er Tomas Svensson sem er einnig markmannsþjálfari íslenska landsliðsins og þekkir því vel til Gísla.

SC Magdeburg er eins og er í fjórða sætið þýsku deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Kiel. Leikstjórnendur liðsins eru Norðmaðurinn Christian O'Sullivan og Slóveninn Marko Bezjak.

Gísli verður ekki eini leikmaður Magdeburgar liðsins því Ómar Ingi Magnússon mun ganga til liðs við félagið í sumar frá danska félaginu Álaborg. Ómar Ingi hefur verið að glíma við meiðsli eins og Gísli en þeir misstu báðir af EM í handbolta í ár vegna meiðsla.

Íslensku landsliðsmennirnir Ólafur Stefánsson, Arnór Atlason og Sigfús Sigurðsson spiluðu líka með liði SC Magdeburg á sínum tíma og þeir Alfreð Gíslason og Geir Sveinsson þjálfuðu liðið.

Ólafur var hjá SC Magdeburg frá 1998 til 2003 og vann bæði þúsku deildina og Meistaradeildina með liðinu þegar Alfreð var þjálfari. Alfreð þjálfaði liðið frá 1999 til 2006 en Geir frá 2014 til 2015.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×