Körfubolti

Fær loksins grænt ljóst á að spila eftir meira en sautján daga bið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deremy Geiger á varamannabekknum hjá Stólunum.
Deremy Geiger á varamannabekknum hjá Stólunum. Mynd/S2 Sport

Nýr Bandaríkjamaður Stólanna er loksins kominn með leikheimild í íslensku Domino´s deildinni.

Deremy Geiger verður því í búning í fyrsta sinn í kvöld þegar Tindastóll fær Val í heimsókn í Domino´s deild karla í körfubolta.

Það er hins vegar ekki eins og Geiger hafi verið að lenda í gær. Hann hefur verið „klappstýra“ liðsins í undanförnum leikjum.

Deremy Geiger var nefnilega kominn til landsins fyrir fyrsta leik Tindastóls eftir áramót sem var á móti Keflavík 6. janúar.

Það tók langan tíma að fá leikheimildina í gegn og hefur Geiger því aðeins verið áhorfandi í síðustu fjórum leikjum liðsins. Tveir af þeim hafa tapast.

Deremy Geiger er 29 ára gamall og 182 sentímetra leikstjórnandi sem var með 16,1 stig og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í tékknesku deildinni í fyrra. Hann hitti þá úr 41 prósent þriggja stiga skota sinna og 86 prósent vítanna.

Tindastóll er áfram með Bandaríkjamanninn Gerel Simmons og geta því aðeins verið með annan þeirra inn á vellinum í einu. Síðan að Deremy Geiger kom þá hefur Gerel Simmons verið með 22,7 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í þremur deildarleikjum þar sem hann hefur hitt úr 53 prósent þriggja stiga skota sinna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.