Handbolti

Norðmenn tryggðu sér bronsið með öruggum sigri á Slóvenum | Þýskaland náði 5. sætinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Norðmenn fagna bronsinu að leik loknum.
Norðmenn fagna bronsinu að leik loknum. Vísir/Getty

Aldrei í hættu hjá Norðmönnum

Bronsið á Evrópumótinu í handbolta er Norðmanna að þessu sinni eftir átta marka sigur á Slóvenum í dag, lokatölur 28-20. Fyrr í dag tryggðu Þjóðverjar sér svo 5. sætið með sigri á Portúgal.

Norðmenn, sem töpuðu í ótrúlegum tvíframlengdum undanúrslitaleik í gær gegn Króatíu, komust þremur mörkum yfir um miðbik fyrri hálfleiks eftir að staðan hafði verið jöfn 5-5. 

Þeir voru enn þremur mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 12-9. Í þeim síðari stigu þeir svo all hressilega á bensíngjöfina á meðan Slóvenar virtust hreinlega ekki mættir til leiks eftir hálfleiksræðuna.

Norðmenn skoruðu fyrstu fimm mörk síðari hálfleiks og litu ekki til baka. Forystan var örugg þangað til loka og unnu þeir sannfærandi átta marka sigur. 

Magn­us Jøn­dal skoraði sjö mörk í norska liðinu. Stórstjarnan Sander Sagosen gerði fjögur mörk og lagði upp önnur sjö. Hjá Slóvenum var Dean Bombac markahæstur með fimm mörk.

Þjóðverjar mörðu Portúgali

Fyrr í dag mættust Þýskaland og Portúgal í leiknum um 5. sætið. Þar höfðu Þjóðverjar betur, 29-27.

Leikurinn var jafn framan af en Þýskaland nær alltaf með eins til tveggja marka forystu. Snemma í síðari hálfleik náðu Þjóðverjar þriggja marka forystu, 18-15, en þegar 15 mínútur voru til leiksloka höfðu Portúgalir jafnað metin.

Staðan þá 23-23 og skömmu síðar voru Portúgalir komnir tveimur mörkum yfir. Þýska liðinu tókst að snúa taflinu við þó skammt væri eftir og vann á endanum tveggja marka sigur, 29-27. 

Besti leikmaður Þýskalands í dag var Ju­l­is Kühn en hann gerði alls sex mörk. Hjá Portúgal voru Alexis Borgers og Joao Ferraz markahæstir með fjögur mörk hvor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×