Handbolti

Króatar í úrslit eftir tvíframlengdan spennutrylli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Króatar fagna í leikslok.
Króatar fagna í leikslok. vísir/epa

Króatía er komið í úrslit á Evrópumótinu í handbolta eftir sigur á Noregi, 29-28, í tvíframlengdum spennutrylli.

Zeljko Musa skoraði sigurmarkið þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Það var hans eina mark í leiknum og aðeins þriðja markið hans á EM.


Króatía mætir annað hvort Spáni eða Slóveníu í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Domagoj Duvnjak var markahæstur Króata með átta mörk. Sander Sagosen átti stórleik í norska liðinu og skoraði tíu mörk. 

Króatar voru lengst af skrefinu á undan en komumst aldrei meira en þremur mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 10-12, Króatíu í vil.

Króatar komust þremur mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 12-15, og fengu tækifæri til að ná fjögurra marka forskoti en Thorbjörn Bergerud varði frá Igor Karacic úr hraðaupphlaupi.


Noregur skoraði næstu þrjú mörk, jafnaði í 15-15 og Sagosen kom Norðmönnum svo yfir, 17-16, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 4-3.

Lokamínúturnar voru æsispennandi. Magnus Gullerud kom Norðmönnum yfir, 22-21, og þeir fengu tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir en Matetj Asanin varði víti frá Sagosen.

Duvnjak skoraði næstu tvö mörk og kom Króatíu yfir, 22-23. Noregur fékk vítakast en Asanin varði frá Magnusi Jondal.


Bergerud varði frá Duvnjak í næstu sókn Króata og Jondal jafnaði í 23-23. Króatar fengu lokasóknina en vörn Norðmanna varði skot Duvnjaks.


Hvort lið gerði aðeins eitt mark í fyrri hálfleik framlengingarinnar og staðan að honum loknum var jöfn, 24-24.

Luka Stepancic kom Króatíu yfir í seinni hálfleik fyrri framlengingar en Sagosen jafnaði með sínu tíunda marki. Kristian Björnsen kom Noregi yfir úr hraðaupphlaupi, 26-25, en Króatía fékk vítakast í þann mund sem leiktíminn rann út. Duvnjak fór á vítalínuna, skoraði og því þurfti að framlengja aftur.


Bæði lið skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik seinni framlengingarinnar. 

Í þeim seinni voru mistökin fjölmörg og aðeins eitt mark skorað. Það gerði áðurnefndur Musa og tryggði Króötum sæti í úrslitum EM í fyrsta sinn síðan 2010.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.