Handbolti

Þjálfarar grófasta og prúðasta liðs EM í handbolta eru íslenskir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Birgir Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu spiluðu stóran hluta leikja sinna á EM manni færri enda að fá yfir fimm brottresktra að meðaltali í leik.
Erlingur Birgir Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu spiluðu stóran hluta leikja sinna á EM manni færri enda að fá yfir fimm brottresktra að meðaltali í leik. EPA-EFE/OLE MARTIN WOLD

Ísland átti þrjá þjálfara á Evrópumótinu í handbolta í ár og tveir þeirra voru með lið sín á sitthvorum endanum þegar kom að prúðmennsku samkvæmt útreikningum evrópska handboltasambandsins.

Það var mjög ólíkt farið með liðum Kristjáns Andréssonar og Erlings Richardssonar á þessu móti. Kristján var á sínu fjórða og síðasta stórmóti með sænska landsliðið en Erlingur á því fyrsta með hollenska landsliðið.

Lærisveinar Kristjáns í sænska landsliðið eru prúðasta lið mótsins fyrir leikina um verðlaun. Þeir fengu aðeins 6,6 refsistig að meðaltali í sjö leikjum sínum.

Sænsku leikmennirnir voru aðeins reknir útaf í tvær mínútur í nítján skipti þar af fjórum sinnum í lokaleiknum á móti Íslandi. Svíarnir fengu síðan 8 gul spjöld og ekkert rautt spjald. Þetta gera 46 refsistig eða 6,6 í leik. Næstu lið voru Rússland og Sviss með 7,3 refsistig í leik.

Lærisveinar Erlings Richardsson létu aftur á móti finna fyrir því eða fengu kannski harðari meðferð hjá dómurum mótsins því þeir voru með langflest refsistig eða 14,7 að meðaltali í leik. Það er meira en tvöfalt fleiri refsistig en Svíar.

Hollendingar voru sautján sinnum reknir útaf í tvær mínútur og það í aðeins þremur leikjum. Það er tveimur brottrekstrum færra en Svíar en sænska liðið lék samt fjórum leikjum meira en Hollendingar á Evrópumótinu.

Hollenska liðið fékk síðan 5 gul spjöld og eitt rautt spjald. Útilokanir vegna þriggja brottvísana teljast hér ekki sem rautt spjald.

Íslenska landsliðið var í miðjum hóp með 8,7 refsistig að meðaltali í leik en það setti liðið í 10. sæti listans yfir prúðustu lið mótsins.  Það má finna allan listann hér.

Prúðasta liðið á EM eftir milliriðla:
1. Svíþjóð 6,6 refsistig í leik
2. Rússland 7,3
2. Sviss 7,3
4. Norður-Makedónía 7,7
5. Danmörk 8,0
6. Frakkland 8,3
6. Serbía 8,3

Grófasta liðið á EM eftir milliriðla:
1. Holland 14,7 refsistig í leik
2. Svartfjallaland 12,7
2. Þýskaland 12,7
4. Úkraína 11,3
5. Hvíta-Rússland 11,1
6. Tékkland 10,9Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.