Körfubolti

Ein stærsta stjarna háskólaboltans tileinkar Kobe Bryant tímabilið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sabrina Ionescu er frábær körfuboltakona.
Sabrina Ionescu er frábær körfuboltakona. Getty/Joe Scarnici

Körfuboltakonan Sabrina Ionescu hefur verið að gera einstaka hluti með Oregon í bandaríska háskólaboltanum og hefur heldur betur komið skóla sínum á kortið.

Sabrina Ionescu og félagar hennar Oregon þurftu að spila leik í gær skömmu eftir að þær fréttu af því að Kobe Bryant og dóttir hann hefðu dáið í þyrluslysi.

Sabrina Ionescu þekkti vel Kobe Bryant og dóttur hans Giannu en feðginin voru höfðu mikinn áhuga á hennar leik enda hefur hún allt til alls að verða ein besta körfuboltakona heims.  



Sabrina Ionescu gaf kost á stuttu viðtali í leikslok. „Allt sem ég geri það geri ég fyrir hann. Hann var mjög náinn vinur. Þetta tímabil er fyrir hann,“ sagði Sabrina Ionescu.

Þjálfari Sabrina Ionescu hjá Oregon segir að hún og Kobe hafi verið í miklu samskiptum og oft haft samskipti nokkrum sinnum í viku. Kobe Bryant og Gianna komu síðast á leik með henni á móti USC í janúar í fyrra þar sem hann talaði við liðið í klefanum eftir leik.

Þrátt fyrir áfallið segir þjálfarinn, Kelly Graves, að það hafi aldrei komið til greina hjá Sabrinu að spila ekki leikinn. „Þá þekkir þú Sabrina ekki nógu vel. Hún veit líka að Kobe hefði viljað að hún hefði spilað. Hann sjálfur hefði spilað þennan leik,“ sagði Kelly Graves. Sabrina Ionescu var stigahæst í sínu liði með 19 stig og Oregon vann Oregon State 66-57

Sabrina Ionescu ákvað að spila lokaár sitt með Oregon þrátt fyrir mikinn áhuga frá liðum í WNBA-deildinni. Hún er sú körfuboltakonan sem hefur náð flestum þrennum í sögu háskólaboltans en þær eru núna orðnar 22 eftir að fjórar hafa bæst við í vetur.

Sabrina Ionescu er með 15,6 stig, 9,0 fráköst og 8,8 stoðsendingar að meðaltali í leik með Oregon liðinu í vetur og hefur sett stefnuna á að vinna háskólatitilinn í fyrsta sinn í mars. Það þykir afar líklegt að hún verði valin fyrst í næsta nýliðavali WNBA.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×