Handbolti

„Þurfum að komast að því hvort Gummi hringdi í Alexander eða Alexander hringdi í hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna sigri á móti Dönum.
Íslensku strákarnir fagna sigri á móti Dönum. EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN

Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, er hrifinn af því sem Guðmundur Guðmundsson er að gera með íslenska landsliðið. Vísir fékk Jóhann Gunnar til að fara yfir Evrópumót íslenska landsliðsins til þessa en fram undan er mikilvægur leikur við Ungverja í dag.

„Gummi ætlaði að taka þrjú ár í þetta og byggja upp nýtt lið. Hann sá að það myndi ekki ganga því hann fór aðra leið inn á þetta mót. Við þurfum að komast að því hvort Gummi hringdi í Alexander eða Alexander hringdi í hann. Það þarf að hrósa þeim manni mikið sem tók af skarið þar því Alexander er búinn að vera frábær,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson í samtali við Arnar Björnsson.

Viðtalið má sjá hér að neðan.

„Hann kallar á Kára aftur og Bjöggi er kominn aftur. Þetta er ótrúlega góð blanda og það er skemmtilega ára yfir liðinu. Maður getur tekið nánast hvern einasta leikmann fyrir en við getum byrjað til dæmis á Ými og Elvari í vörninni. Þeir hafa verið frábærir og Ýmir kemur mér virkilega á óvart en hann er að stíga risaskref fram á við í varnarleik,“ sagði Jóhann. 

„Ýmir var mikið að fá tvær mínútur á fyrri mótum og hefur verið klaufi. Hann er búinn að laga staðsetningar hjá sér,“ sagði Jóhann.

Elvar er okkar besti varnarmaður

„Janus hefur komið frábærlega inn í sóknina á miðjunni sem gerir það að verkum að Elvar getur hvílt aðeins í sókn. Elvar þarf að einbeita sér meira að vörninni því hann er okkar besti varnarmaður. Ég gæti talað hér í allan dag,“ sagði Jóhann Gunnar en nefnir sérstaklega Viggó Kristjánsson í hægri skyttunni. „Fyrir þremur til fjórum árum þá var maður hálfpartinn að hlæja af honum í Gróttu. Hann var bara að gefa „no-look“ sendingar og svona. Góður leikmaður og allt það en ég sá það aldrei fyrir að hann myndi ná þessum árangri,“ sagði Jóhann.

„Endurkoman hjá Bjögga er frábær, Kári er búinn að vera besta línumaðurinn á mótinu og svo mætti lengi telja,“ sagði Jóhann Gunnar en hvað með frammistöðu þjálfarans sem er búinn að leggja nótt við dag við að undirbúa liðið. Hann sefur ekki mikið þessa dagana.

Arnór Þór Gunnarsson.EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN

„Þetta er að snúast svolítið upp í það að vera hans mót. Það varð til skemmtilegt umtal eftir að hann vann Danina og hvernig þeir fóru með hann. Hann ákvað að hvíla hornamennina í leik tvö og er að gefa leikmönnum tækifæri sem hann var gagnrýndur fyrir að gera ekki þegar hann var með landsliðið hér áður fyrr. Þá var hann mikið að spila á sömu mönnunum,“ sagði Jóhann.

Eins og inntökuprófið í læknisfræði

„Guðmundur er búinn að leggja þessa leiki fullkomlega upp. Þetta voru tvö mjög erfið en mismunandi próf. Það fyrsta á móti Dönum var eins og inntökuprófið í læknisfræði. Þeir rúlluðu því upp. Svo var erfitt að þurfa síðan að gíra sig upp í kaflapróf í ensku og halda kannski að þeir væri betri en þeir eru. Við höfum oft fallið á svoleiðis prófum en sem betur fer náðum við því með glans,“ sagði Jóhann.

Enn eitt prófið hjá íslenska liðinu er síðan lokaleikurinn í riðlinum gegn Ungverjum en þar getur íslenska liðið náð sér í tvö stig inn í milliriðilinn.

„Það verður spennandi að sjá. Þetta er í fyrsta sinn í mótinu þar sem við mætum liði sem er með örvhentan leikmann. Við höfum ekki þurft að glíma við það hingað til og höfum því getað sett áhersluna á vinstri vængina. Ungverjar eru með fullt sjálfstraust. Þó að við séum komnir áfram þá er þetta algjör lykilleikur því þetta er í raun fyrsti leikurinn í milliriðli,“ sagði Jóhann.

„Við viljum fá Danina upp þótt að það sé ótrúlegt að segja það. Þá förum við með tvö stig upp í milliriðil og Danirnir geta kroppað stig af hinum liðunum. Með því gera þeir þetta að meiri graut og jafnari riðli sem er að ég held gott fyrir okkur. Það er samt ótrúlegt að vera í erfiðasta riðlinum en vera samt komnir áfram eftir tvo leiki,“ sagði Jóhann Gunnar.

Kári Kristjánsson.EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN

„Þetta er líf og fjör. Það er eins gott að þeir haldi áfram að standa sig en ekki að allir séu að hrósa þeim og svo fari þeir í eitthvað rugl. Þeir þurfa að vera áfram á tánum,“ sagði Jóhann Gunnar.

Ungverjar unnu Rússa og leikur liðanna var ekkert sérstakur en það var annar bragur á ungverska liðinu í jafnteflinu við Dani.

Með breiðari hóp en Ungverjar

„Ég held að þeir hafi farið svolítið kærulausri í Rússaleikinn og ætluðu að fara nokkuð létt með það. Þeir höfðu kannski stillt þetta upp sem úrslitaleik á móti okkur. Þeir voru komnir með bakið upp við vegg og sýndu það á móti Dönum að þeir eru frábærir. Þeir eru með frábæran markmann og eru með ungt lið. Ég var ánægður að sjá Nagy á bekknum bara fyrir okkur,“ sagði Jóhann.

Leikurinn gegn Dönum gæti hafa tekið sinn toll af orku Ungverjanna, nýtist það íslenska liðinu?

„Ég veit það ekki. Það eru orðin svo góð fræði í þessu og góðir sjúkraþjálfarar. Endurheimtin er orðin svo góð. Ég held að við séum með breiðari hóp en Ungverjar og ættum að gera keyrt yfir þá. Við keyrðum yfir Rússana, þeir áttu í erfiðleikum og vilja kannski spila hægari bolta. Við bara keyrum yfir þá,“ sagði Jóhann Gunnar en það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.