Körfubolti

Karlalið Grindavíkur lagði inn 20 þúsund krónur í Minningarsjóð Ölla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson að stýra liði Grindavíkur en hann var áður þjálfari Njarðvíkurliðsins.
Daníel Guðni Guðmundsson að stýra liði Grindavíkur en hann var áður þjálfari Njarðvíkurliðsins. Vísir/Daníel

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur í Domino´s deild karla í körfubolta, segir frá því á fésbókarsíðu sinni í dag að hans leikmenn hafi ákveðið að styrkja Minningarsjóðs Örlygs Arons Sturlusonar.

Í dag eru tuttugu ár síðan að Örlygur Aron Sturluson lést af slysförum þá aðeins átján ára gamall. Hann var þá þegar orðin stórstjarna í íslenskum körfubolta og A-landsliðsmaður.

„Kemst því miður ekki á leikinn í kvöld, en við í karlaliði Grindavíkur leggjum 20 þúsund krónur til Minningarsjóðs Ölla og hvetjum lið í Dominos deildinni að gera slíkt hið sama - eða jafnvel betur!,“ skrifaði Daníel inn á fésbókarsíðu sína með mynd af millifærslunni.

Daníel Guðni Guðmundsson er frá Njarðvík og var á fjórtánda ári þegar Örlygur lést.

„Ég man þetta eins og það gerðist í gær. Andrúmsloftið í skólanum var þungt þegar maður mætti á mánudeginum. Ótrúlega sorglegt,“ skrifaði Daníel og bætti seinna við:  „Man þegar við vinirnir vorum að horfa á leik með Njarðvík uppi í íþróttahúsi og við vorum að tala um að við myndum pottþétt kaupa "Ölla skóna" þegar þeir kæmu út. Svo góður var hann og við vorum alveg vissir að hann myndi koma sér í NBA,“ skrifaði Daníel.

Domino´s Körfuboltakvöld verður með „Í minningu Ölla“ í beinni frá Njarðtaksgryfjunni fyrir leik Njarðvíkur og Keflavíkur sem hefst klukkan 20.15.

Allur aðgangseyrir á leikinn mun renna óskiptur í Minningarsjóð Ölla en sjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning sjóðsins:0322-26-021585, kt. 461113-1090.

Allur sá peningur sem safnast fer í að styrkja börn til íþróttaiðkunar. Forsvarsmenn sjóðsins gefa sína vinnu sem og allir þeir sem að starfseminni koma.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.