Handbolti

Sebastian: Jónas var kannski aðeins of nálægt

Sæbjörn Þór Þórbergsson skrifar
Sebastian sagði að sjö marka tap gæfi ekki rétta mynd af leiknum gegn Fram.
Sebastian sagði að sjö marka tap gæfi ekki rétta mynd af leiknum gegn Fram. vísir/vilhelm

Fyrstu viðbrögð Sebastians, þjálfara Stjörnunnar, eftir tapið fyrir Fram, 25-32, voru þau að munurinn hefði getað verið fjögur eða fimm mörk en ekki sjö mörk þegar upp var staðið. Hann hélt svo áfram að tjá sig um leikinn:

„Mér fannst við gefa þeim hörkugóðan leik en ódýr mörk í restina skekkja myndina aðeins. Í ljósi þess að það vantar mikið hjá okkur þá sýnir leikurinn að undirbúningurinn gekk vel. Ég er rosalega jákvæður þó að Fram hafi verið betra liðið í dag. Þessi leikur gefur góð fyrirheit upp á framhaldið, margir leikmenn sem eru að spila sig inn í liðið og upp á það að vera í hóp þegar aðrir leikmenn koma til baka úr meiðslum.“

Hvað er það helsta sem Sebastian sér í óreyndari leikmönnunum, sem fengu tækifæri í dag, sem hann getur nýtt í framhaldinu?

„Auður Brynja stóð sig frábærlega í vörninni. Hún er að spila sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið. Frammistaðan hjá Sigrúnu á línunni var einnig góð,“ sagði Sebastian og hélt áfram að ræða leikinn.

„Mér fannst áherslurnar í því sem við breyttum í jólafríinu, einhverjir sem vita ekki betur sjá ekki muninn, skila sér. Við hlupum til dæmis vel til baka. Það vantaði samt aðeins upp á markvörsluna og svo voru aðeins of margir tapaðir boltar sem töpuðust án þess að mínir leikmenn voru undir mikilli pressu,“ sagði Sebastian.

Hann var að lokum spurður út í samskipti við Jónas Elíasson dómara í seinni hálfleiknum. Hann kallaði inn á völlinn að heimurinn þyrfti að farast til að „hún“ fengi dæmd skref á sig og Sebastian er þá að tala um leikmann Fram.

„Ég skal alveg tjá mig um þetta. Ég var ekki að skamma Jónas, hann var kannski aðeins of nálægt. Við bekkurinn höfum rætt saman um það að vera ekki að kalla inn á til dómaranna. Ég heyrði „skref skref skref“ fyrir aftan mig og var í raun að skamma bekkinn. Jónas kom til mín og ég bað hann afsökunar,“ sagði Sebastian að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×