Körfubolti

Draymond Green er í „sumarfríi frá NBA“ en nældi sér samt í 6,8 milljóna sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Draymond Green er vanur að koma sér í vandræði og gerir það líka þótt að hann sé ekki sjálfur að spila.
Draymond Green er vanur að koma sér í vandræði og gerir það líka þótt að hann sé ekki sjálfur að spila. Getty/Nhat V. Meyer

NBA-deildin ákvað að sekta Golden State Warriors leikmanninn Draymond Green um 50 þúsund Bandaríkjadali.

Draymond Green braut reglur NBA-deildarinnar þegar hann talaði um Devin Booker í útsendingu TNT-sjónvarpsstöðvarinnar. Hann sjálfur vissi alveg að hann hefði gengið of langt.

Devin Booker hefur staðið sig frábærlega með Phoenix Suns liðinu og Draymond Green kallaði eftir því að hann myndi koma sér frá Phoenix Suns sem fyrst eins og sjá má hér fyrir neðan.

NBA-deildin er með mjög strangar reglur um það að leikmenn og þjálfarar mega ekki verið að reyna að hafa áhrif á hvað aðrir leikmenn gera.

Það sem er sérstakt er að Draymond Green skuli hafa getað náð sér í 6,8 milljóna sekt þegar tímabilið hans er löngu búið.

Draymond Green og félagar í Golden State Warriors stóðu sig svo illa á NBA-tímabilinu að þeir fengu ekki að vera með Disney-garðinum. Þangað komusy aðeins þau lið sem áttu möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni en Warriors var með lélegasta árangurinn í deildinni.

Hinn yfirlýsingaglaði og kjaftfori Draymond Green er duglegur að koma sér í vandræði þegar hann er að spila en núna tókst honum að næla sér í stóra sekt þrátt fyrir að vera í „sumarfríi“ frá NBA-deildinni.

Það þarf hins vegar ekki að koma mikið á óvart að Green vilji sjá Devin Booker í sínu liði. Booker er frábær leikmaður sem hefur sprungið út í Disney-garðinum. Hann hefur skorað 29,4 stig og gefið 6,4 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu fimm leikjunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×