Körfubolti

Lakers öruggir með toppsætið í fyrsta sinn í áratug

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Utah Jazz áttu ekki roð í Davis í leik liðanna.
Leikmenn Utah Jazz áttu ekki roð í Davis í leik liðanna. Kim Klement/Getty Images

Los Angeles Lakers lagði Utah Jazz með átta stiga mun í NBA-deildinni í gærkvöld, 116-108. Var þetta þriðji leikur liðsins í NBA-kúlunni svokölluðu en allir leikir deildarinnar fara framí Disney World í Orlandó sökum kórónufaraldursins.

Sigurinn þýðir að Lakers eru nú öruggir með efsta sæti Vesturdeildar. Er þetta í fyrsta skipti í áratug sem liðið nær þeim árangri.

„Eftir allt sem hefur gengið á hjá okkur á þessu tímabili þá skiptir það okkur miklu máli að ná efsta sætinu. Við erum samt hvergi nærri hættir,“ sagði Anthony Davis að leik loknum.

Þessi ótrúlegi leikmaður setti 42 stig í leiknum gegn Utah ásamt því að taka tólf fráköst. Var það í 20. skipti á tímabilinu sem Davis skorar 20 stig eða meira í leik.

Kobe Bryant, sem lést á hroðalegan hátt í þyrluslysi í janúar á þessu ári, leiddi Lakers til sigurs í NBA-deildinni síðast þegar liðið endaði á toppi Vesturdeildarinnar.

Leikið er þétt í NBA-deildinni þessa dagana en deildin er með breyttu sniði sökum kórónufaraldursins. Lakers eru besta liðið í Vesturdeildinni með 51 sigur og 15 töp í þeim 66 leikjum sem liðið hefur spilað.

Milwaukee Bucks eru þó það lið með bestan árangur í bæði Austur- og Vesturdeildinni. Dádýrin frá Milwaukee eru með 54 sigra og aðeins 13 töp í þeim 57 leikjum sem liðið hefur leikið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.