Körfubolti

Í sóttkví eftir heimsókn á strípibúllu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Williams í baráttunni við LeBron James, leikmann Los Angeles Lakers. Williams mun missa af næsta leik Clippers gegn Lakers.
Williams í baráttunni við LeBron James, leikmann Los Angeles Lakers. Williams mun missa af næsta leik Clippers gegn Lakers. Jevone Moore/Getty Images

Lou Williams – skotbakvörður Los Angeles Clippers í NBA-deildinni – mun missa af fyrstu tveimur leikjum liðsins í Disney World eftir að hafa fengið sér kvöldmat á strípibúllu.

NBA-deildin í körfubolta er í þann mund að fara aftur af stað en eins og áður hefur komið fram á Vísi verður núverandi tímabil klárað í Disney World sem er staðsett í Orlando í Bandaríkjunum. Þar verður leikið fyrir luktum dyrum og á meðan deildin fer fram þurfa allir leikmenn liðsins að vera á svæðinu. 

Hinn 33 ára gamli Williams fékk leyfi til að yfirgefa svæðið til að mæta í jarðaför afa síns. Það eitt og sér þýddi að hann hefði þurft að fara í sóttkví í fjóra daga en eftir að myndir birtust af honum á strípibúllu þá þarf hann að eyða tíu dögum í sóttkví.

Williams segir á samfélagsmiðlum sínum að hann hafi aðeins stoppað í stutta stund á búllunni og að hann hafi aðeins farið þangað til að borða. Hann sagði einnig að þetta væri uppáhalds veitingastaðurinn hans og að fólk ætti aðeins að slaka á.

Til að færa rök fyrir máli sínu þá ákvað Williams einnig að endurtísta gamalli færslu á Twitter þar sem hann hrósar matnum á Magic City-strípibúllunni. 

Williams missir af leikjum Clippers gegn erkifjendum í Los Angeles Lakers og New Orleans Pelicans. Williams hefur verið fyrsti maður inn af bekk hjá Clippers en hann hefur þrívegis hlotið hin svokölluðu Sjötti maður ársins í NBA-deildinni.

Þó hann byrji flesta leiki á bekknum þá spilar hann venjulega töluvert meira en margir þeirra sem byrja leikina. Williams var með 18,7 stig að meðaltali í leik, 5,7 stoðsendingar og 3,1 frákast áður en hlé var gert á deildinni.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×