Innlent

„Okkur hafði lengið langað að koma til Íslands. Nú er Ísland eitt af öruggustu löndunum“

Birgir Olgeirsson skrifar

Á miðnætti sem leið gátu farþegar frá fjórum löndum til viðbótar komið til landsins án þess að þurfa að fara í skimun eða sóttkví. Hátt í 2.500 manns komu til landsins í dag með 17 flugvélum. Farþegar sögðust glaðir að vera komnir í eitt af öruggustu löndunum.

Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland hafa bæst á listann yfir örugg lönd. Af þeim 17 flugvélum sem komu til Keflavíkurflugvallar í dag komu sjö þeirra frá löndum sem ekki teljast örugg vegna kórónuveirunnar.

Hátt í 2.500 farþegar ferðuðust með þessum vélum, og því um einn annasamast daginn á flugvellinum frá því ferðatakmarkanir voru rýmkaðar.

„Það er mjög öruggt núna,“ sagði Carmen Alvare við komuna til landsins. Hún kom hingað til lands frá Þýskalandi ásamt manni sínum Daniel Esteban.

„Okkur hafði lengið langað að koma til Íslands. Nú er Ísland eitt af öruggustu löndunum,“ sagði Daniel.

„Ég óttast ekki veiruna en við ætlum okkur að fara varlega og snerta ekkert að óþörfu,“ sagði Julia Kramer þegar hún kom til landsins frá Þýskalandi.

„Við erum glaðir að vera hér í viku. Að fá að vera úti í náttúrunni, næra sálina og veiða,“ sagði Wolfram Hopper frá Þýskalandi.

„Ég hafði hugsað mér að fara til Íslands í fjölda ára. Í ár var heldur betur gott tækifæri til að koma,“ sagði Jens Kawheg frá Þýskalandi.

Icelandair segir fjölda farþega hafa farið stigvaxandi undanfarnar vikur. Samsetning farþega sé mjög fjölbreytt.

„Samkvæmt könnunum um borð í vélunum hjá okkur þá virðist vera mikið fólk sem er að heimsækja vini og vandamenn,“ sagði Guðmundur Ólafsson, forstöðumaður flugvallarsviðs Icelandair.

Umferðin er mun meiri til Íslands en frá landinu.

„Traffíkin er mikið meiri til landsins en frá. Við erum að sjá Íslendinga leita til Kaupmannahafnar og Billund.“

Farþegar virðast einnig taka vel í sóttvarnarástafanir og bera flestir grímur glaðir.

„Við þó tökum tillit til þess ef farþegar geta ekki borið grímur vegna heilsufarsástæðna, en það er metið eftir hverju tilfelli fyrir sig.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×