Markvörðurinn Petar Jokanovic hefur skrifað undir nýjan samning til eins árs við handknattleiksdeild ÍBV.
Jokanovic kom til ÍBV fyrir síðustu leiktíð og varð bikarmeistari með liðinu. Hann átti stórleik í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni, varði 40% skota sem hann fékk á sig og var valinn maður leiksins.
Eftir því sem fram kemur á Facebook-síðu ÍBV er Jokanovic mjög ánægður með lífið í Vestmannaeyjum og hann ákvað því að taka annað tímabil með liðinu. Síðasta tímabil varð styttra en ella vegna kórónuveirufaraldursins en ÍBV hafnaði í 7. sæti Olís-deildarinnar.