Menning

Sólveig hlaut Blóðdropann fyrir „Fjötra“

Kjartan Kjartansson skrifar
Kápa bókarinnar „Fjötrar“ eftir Sólveigu Pálsdóttur.
Kápa bókarinnar „Fjötrar“ eftir Sólveigu Pálsdóttur. Skjáskot

Hið íslenska glæpafélag veitti Sólveigu Pálsdóttur Blóðdropann, verðlaun fyrir bestu íslensku glæpasögu ársins, fyrir bók hennar „Fjötra“ í dag. Tuttugu bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í ár og hafa þær aldrei verið fleiri.

„Fjötrar“ er fimmta bók Sólveigar og segir bókin frá konu sem finnst látin í klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði. Í umsögn dómnefndar segir að Sólveig flétti í bókinni á frumlegan og öruggan hátt saman „sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmálum fjölskyldna“.

Bók Sólveigar verður framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, á næsta ári. Í tilkynningu Hins íslenska glæpafélags kemur einnig fram að breskir framleiðendur vinni nú að gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggir á fyrri bók Sólveigar, „Refnum“.

Dómnefndina skipuðu þau Páll Kristinn Pálsson, Helga Birgisdóttir og Kristján Atli Ragnarsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×