Körfubolti

Íslenska Domino´s deildin hefst á sama tíma og NBA-deildin mun klárast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James ætlaði sér stóra hluti með Los Angeles Lakers liðinu í úrslitakeppni og það hefur væntanlega ekkert breyst.
LeBron James ætlaði sér stóra hluti með Los Angeles Lakers liðinu í úrslitakeppni og það hefur væntanlega ekkert breyst. Getty/Harry How

NBA-deildin er farin að leggja lokahönd á það hvernig hún ætlar að klára NBA-tímabilið sem fór í algjört frost þegar kórónuveirufaraldurinn fór á flug í Bandaríkjunum í marsmánuði.

Adrian Wojnarowski hefur það eftir sínum öflugu heimildarmönnum að fari lokaúrslit NBA-deildarinnar í körfubolta alla leið í leik sjö þá mun sá leikur fara fram 12. október næstkomandi.

Þetta þýðir að lokaúrslitin í NBA í ár munu því hefjast í lok september eða nokkrum dögum áður en Domino´s deild karla 2020-21 fer af stað. Fyrsta umferð Domino´s deildar karla á að fara fram 1. október.

NBA-deildin mun þó breyta nokkuð venjulegu fyrirkomulagi sínu til að geta klárað tímabilið. Væntanlega munu 22 lið (af 30) taka þátt í lokakafla 2019-20 tímabilsins en fyrirkomulagið verður kynnt á allra næstu dögum. NBA-deildin mun síðan hefjast á ný 31. júlí í Disney World í Orlando.

Sextán lið fara vanalega inn í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en þegar leik var hætt þá voru sex önnur lið sex leikjum eða minna frá því að komast í úrslitakeppnissæti.

Það er því búist við því að þessi sex lið taki líka þátt í lokakaflanum þar sem liðin spila fyrst deildarleiki og fari svo í úrslitakeppni. Fyrstu leikir úrslitakeppninnar myndu þá vera leikir þar sem lið eru að spila um síðustu sætin inn í úrslitakeppnina.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.