Körfubolti

Jón Axel fremstur allra Villikatta

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Axel Guðmundsson fór á kostum sem leikmaður Davidson Wildcats.
Jón Axel Guðmundsson fór á kostum sem leikmaður Davidson Wildcats. VÍSIR/GETTY

Körfuboltamaðurinn Jón Axel Guðmundsson hlaut mikla viðurkenningu í dag þegar hann var valinn íþróttamaður ársins í Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum.

Skólinn teflir auðvitað fram íþróttafólki í ýmsum greinum, undir heitinu Davidson Wildcats, en frammistaða Jóns Axels á lokatímabili hans með körfuboltaliðinu stóð upp úr hvað karlkyns fulltrúa skólans varðar.

Jón Axel kveður Davidson sem einn af merkustu leikmönnum í sögu körfuboltaliðsins en á tíma sínum hjá skólanum var hann til að mynda valinn leikmaður ársins í Atlantic 10 riðlinum í fyrra. Hann er eini leikmaður í sögu Davidson sem náð hefur yfir 1.000 stigum, 500 fráköstum og 500 stoðsendingum, og er í hópi tíu stigahæstu leikmanna í sögu skólans.

Jón Axel freistar þess nú að komast að hjá liði í sjálfri NBA-deildinni. Hann greindi frá því í viðtali við Kristján Jónsson í Morgunblaðinu í vikunni að hann hefði rætt við fimm lið og ætti eftir að ræða við að minnsta kosti önnur þrjú. „Ég er búinn að tala við Charlotte Hornets, Cleveland Cavaliers, Utah Jazz, Phoenix Suns og Milwaukee Bucks,“ sagði Jón Axel og kvaðst eiga eftir að ræða við Miami Heat, Sacramento Kings og Golden State Warriors, auk væntanlega fleiri liða.

Vegna kórónuveirufaraldursins er óvíst hvenær að nýliðavalið í NBA verður en til stendur að það fari fram í júlí. Það gæti þó dregist fram í september, sagði Jón Axel við Morgunblaðið.


Tengdar fréttir

Jón Axel kvaddi með viðeigandi hætti

Jón Axel Guðmundsson var kvaddur með virktum eftir að hafa átt enn einn góða leikinn fyrir Davidson Wildcats í bandaríska háskólakörfuboltanum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×