Handbolti

Rosalegustu félagaskipti í sögu norsks handbolta – Abalo kemur í stað Sigvalda

Sindri Sverrisson skrifar
Luc Abalo hefur meðal annars tvívegis orðið Ólympíumeistari með Frökkum.
Luc Abalo hefur meðal annars tvívegis orðið Ólympíumeistari með Frökkum. VÍSIR/GETTY

Luc Abalo, sem átta sinnum hefur unnið gullverðlaun á stórmóti með Frakklandi, er genginn í raðir norska handknattleiksliðsins Elverum þar sem hann mun fylla skarð Sigvalda Björns Guðjónssonar.

Sigvaldi er farinn til pólsku meistaranna í Vive Kielce og í hans stað kemur stærsta stjarna sem spilað hefur í Noregi. Um það verður líklega ekki deilt.

„Þetta eru stærstu félagaskipti sem hafa átt sér stað í norskum handbolta, um það er ég handviss,“ segir Nils Kristian Myhre, íþróttastjóri Elverum, og handboltasérfræðingurinn Bent Svele tekur undir það í viðtali við TV2. „Þetta er óraunverulegt. Ég hefði ekki trúað því að það væri mögulegt að fá leikmann í þessum flokki í norskt félagslið. Þetta er án vafa stærsta félagaskiptafrétt handboltasögunnar hérna, enda um heimsþekkta stjörnu að ræða. Þetta er viðurkenning og verður mikil veisla að fá svona leikmann til Noregs,“ sagði Svele.

Abalo, sem er 35 ára, hefur leikið 262 landsleiki og skorað yfir 800 mörk. Auk þess að vinna samtals átta gullverðlaun á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum, hefur hann náð góðum árangri með félagsliðum og meðal annars unnið Meistaradeild Evrópu með Ciudad Real. Hann var síðast hjá PSG.

„Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi eiga eftir að spila í Noregi en þetta reyndist vera sú áskorun sem ég vissi ekki af,“ sagði Abalo. Hann ætlaði að leggja skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar en eftir að þeim var frestað um eitt ár ákvað hann að halda áfram og grípa tækifærið sem bauðst í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×