Körfubolti

Búið að sýna fram á fyrstu lygina hjá Michael Jordan í „The Last Dance“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan í leik með Chicago Bulls í kringum þann tíma sem hann komst loksins í gegnum Detroit Pistons liðið.
Michael Jordan í leik með Chicago Bulls í kringum þann tíma sem hann komst loksins í gegnum Detroit Pistons liðið. Getty/Focus

Michael Jordan talaði um það í „The Last Dance“ að hann hafi aldrei sagt það að hann vildi ekki Isiah Thomas í Draumaliðið í Barcelona 1992.

Nú hefur gömul hljóðupptaka með Jordan komið fram í bandarískum fjölmiðlum. Jordan rifjar þar upp að hann hafi sagt það á sínum tíma að hann myndi ekki spila með Draumaliðinu ef Isiah Thomas yrði með í því liði.

Mikið var gert úr því sem Jordan sagði um Isiah Thomas í „The Last Dance“ þáttunum og þá sérstaklega að hann væri enn brjálaður út í gamla Detriot Pistons manninn þrjátíu árum síðar.

Valið á draumaliðinu fræga kom skömmu eftir leikinn sem gerði Jordan svona öskureiðan út í Isiah Thomas og félaga í Detriot Pistons. Thomas og stjörnur Detroit liðsins yfirgáfu þá leikinn áður en hann kláraðist og þökkuðu leikmönnum Chicago Bulls ekki fyrir seríuna sem endaði 4-0 fyrir Bulls.

Þetta var í fyrsta sinn sem Chicago Bulls tókst að komast í gegnum Detriot Pistons í úrslitakeppninni og nokkrum vikum seinna var Jordan orðinn NBA meistari í fyrsta sinn.

Hljóðupptakan er kannski ekki alveg skýr en þar var Jordan að ræða við Jack McCallum sem skrifaði bókina „Dream Team“ sem kom út árið 2012. Upptakan er síðan 2011. McCallum hefur staðfest það að þetta sé upptakan og það sé þar rétt haft eftir Jordan.

Blaðamaður Washington Post skrifaði upp það sem Jordan sagði í þessu viðtali.

„Rod Thorn [Yfirmaður valnefndar Ólympíuliðsins og maðurinn sem valdi Jordan í nýliðavalinu] hringdi í mig,“ sagði Jordan.

„Ég sagði: Rod, ég spila ekki ef Isiah Thomas er í liðinu. Hann fullvissaði mig um að svo væri ekki: Veistu hvað. Chuck vill ekki hafa Isiah. Isiah verður því ekki í liðinu,“ rifjaði Michael Jordan upp í þessu níu ára gamla viðtali.

Chuck er Chuck Daly, sem var ekki aðeins þjálfari bandaríska Ólympíuliðsins í Barcelona 1992 heldur einnig þjálfari Thomas hjá Detriot Pistons.

Jordan sagði í „The Last Dance“ að hann hafi aldrei nefnt Isiah Thomas á nafn þegar hann var spurður en Jordan sagði að það hefði verið allt önnur stemmning í liðinu hefði Thomas verið með í Barcelona 1992.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×