Handbolti

Velunnarar Selfoss söfnuðu fyrir Guðmundi Hólmari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Hólmar er á heimleið eftir fjögur ár í atvinnumennsku.
Guðmundur Hólmar er á heimleið eftir fjögur ár í atvinnumennsku. vísir/getty

Handboltamaðurinn Guðmundur Hólmar Helgason er á leið til Íslandsmeistara Selfoss frá austurríska liðinu West Wien. Þetta kom fram í Sportinu í dag.

Þar greindi Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, frá því að velunnarar handboltans á Selfossi hefðu hjálpað til við að landa Guðmundi.

„Okkar velunnarar og stuðningsmenn hafa horft á stöðuna hjá okkur. Þeir vita að við þurfum að styrkja liðið því við erum að missa besta leikmann deildarinnar. Hópur einstaklinga og lítilla fyrirtækja komu mjög sterk inn og styrktu okkur í þessu,“ sagði Þórir en sem kunnugt er missir Selfoss Hauk Þrastarson til Kielce í sumar. Það skarð þurfti því að fylla.

„Þessir aðilar sem hér um ræðir brugðust mjög snöggt við, komu að máli við okkur og vildu styrkja okkur. Þeir gerðu þetta mögulegt og við eigum þeim skuld að gjalda.“

Þórir segir að Selfoss muni áfram byggja á uppöldum strákum. Hann útilokar þó ekki að Selfyssingar muni bæta við sig leikmönnum.

Klippa: Sportið í dag - Hjálpuðu til við að landa Guðmundi Hólmari

Guðmundur hóf ferilinn með Akureyri en gekk í raðir Vals 2013. Hann varð bikarmeistari með Hlíðarendaliðinu 2016. Eftir það tímabil fór hann til Cesson-Rennes í Frakklandi þar sem hann lék um tveggja ára skeið. Guðmundur var svo tvö ár hjá West Wien. 

Guðmundur, sem er 27 ára, lék með íslenska landsliðinu á EM 2016 og HM 2017. Hann hefur leikið 25 landsleiki.

Halldór Sigfússon tekur við Selfossi í sumar og er nú búinn að fá sinn fyrsta leikmann. Selfyssingar voru í 5. sæti Olís-deildarinnar þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×