Körfubolti

Keflvíkingar grilluðu fyrir framlínufólk

Sindri Sverrisson skrifar
Dominykas Milka var á meðal þeirra sem sáu um að færa framlínufólkinu veitingar.
Dominykas Milka var á meðal þeirra sem sáu um að færa framlínufólkinu veitingar. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Það er gaman að geta gert eitthvað svona fyrir framlínufólkið okkar,“ segir Kristján Helgi Jóhannsson, stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Keflavíkur, en deildin bauð heilbrigðisstarfsfólki upp á grillaða hamborgara til að sýna þakklæti fyrir störf þess á tímum kórónuveirufaraldursins.

Kjartan Atli Kjartansson heimsótti Keflvíkinga í glaðasólskini og ljóst að uppátækið vakti mikla lukku. Leikmenn tóku þátt en þeir fóru fyrr í frí frá körfuboltanum en ella vegna faraldursins.

„Þegar við kíktum í frystikistuna, eftir 19. mars, þá sáum við hátt í 200 hamborgara sem átti að nýta í úrslitakeppnina, sem ekki voru lengur not fyrir. Okkur datt þetta því í hug. Þetta er leið til að þakka fólkinu í samfélaginu og þá er gott að framlínufólkið fái að njóta, sem hefur verið að sinna okkur öllum,“ sagði Kristján.

Keflvíkingar hrundu af stað söfnun á Karolina Fund eftir að hafa orðið af miklum tekjum vegna kórónuveirunnar, og fengu afar góðar viðtökur. Þeir hafa safnað þeirri upphæð sem stefnt var að og rúmlega það. Því var vert að fagna, og nú hefur verið samið við flesta leikmenn liðanna um að spila áfram fyrir Keflavík. Þar á meðal er Dominykas Milka sem var einn besti leikmaður Domino‘s-deildar karla í vetur. Kjartan ræddi einnig við hann.

„Við vildum sýna þakklæti okkar gagnvart öllu fólkinu sem er að vernda Ísland og Keflavík gegn kórónuveirunni. Sýna að við sem félag kunnum að meta þetta og viljum gefa eitthvað til baka,“ sagði Milka í innslaginu sem sjá má hér að neðan.

Klippa: Karfan í Keflavík grillaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Milka á óklárað verk fyrir höndum í Keflavík

Keflavík fékk góð meðmæli þegar Dominykas Milka fór að spyrjast fyrir um félagið á síðasta ári. Eftir að hafa leikið frábærlega með liðinu í Domino‘s-deildinni í vetur ákvað þessi öflugi körfuboltamaður að vera áfram í Keflavík á næstu leiktíð.

Lykilmenn Keflavíkur halda áfram að framlengja

Keflvíkingar halda áfram að skrifa undir við lykilmenn sína í körfuboltanum fyrir næstu leiktíð en nú hefur Deane Williams skrifað undir samning við félagið fyrir næstu leiktíð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.