Skoðun

Ný­sköpun og rann­sóknir á Blöndu­brú

Björn Hjartarson og Ólafur H. Wallevik skrifa

Eftir nýlegar viðgerðir er Blöndubrú í prýðilegu ásigkomulagi og ætti að duga í fimmtíu til sextíu ár til viðbótar. Framkvæmdirnar við brúna eru gott dæmi um nýsköpunar- og rannsóknarverkefni með mikla þjóðhagslega þýðingu þar sem afraksturinn er notaður til að bæta samgöngukerfi þjóðarinnar.

Brúin yfir Blöndu á þjóðvegi nr. 1 var byggð á árunum 1962-1963 og er sú fyrsta hér á landi sem var gerð úr eftirspenntri steinsteypu. Heildarbreidd brúarinnar er 9,63 m en akbrautin var mjókkuð nokkuð 1990 þegar gangbraut með handriði var sett á vinstri kant, á leið norður (undan straumi).

Vinna við Blöndubrú.Björn Hjartarson

Endurbætur á brúnni hófust 2016 þegar ráðist var í talsverðar endurbætur á brúnni um leið og slitgólf hennar var endurnýjað. Gamla steypan var brotin í burtu með nýlegu vatnsbrotstæki Vegagerðarinnar og ný, sérhönnuð slitsterk steypa lögð í staðinn. Þegar framkvæmdir hófust komu í ljós meiri skemmdir á brúnni en menn höfðu átt von á. Því var tekin ákvörðun um að skipta verkinu niður í tvo hluta en 2016 voru akbrautin og útkantur ofanstraums endurnýjuð en 2019 gönguleiðin og allt neðanstraums.

Björn Hjartarson

Viðgerðin á brúnni 2019 hófst í júlímánuði og lauk seinni part ársins. Um var að ræða heilmikla aðgerð því brjóta þurfti upp gangstéttina sem var steypt 1990. Því næst voru hengdir upp verkpallar undir brúna og útkantar neðanstraums brotnir af með vatnsbroti, en þeir eru 1,40 m á breidd. Sett voru ný vegrið sem uppfylla öryggisstaðla milli gangbrautar og akbrautar og einnig nýtt gönguhandrið á göngubrúna.

Björn Hjartarson

Þróun á slitsterkri steypu

Vegagerðin og Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa í gegnum árin átt árangursríkt samstarf um nokkur tilraunaverkefni sem snúa að þróun á mjög slitsterkri steypu á brúargólf. Gerðar hafa verið tilraunir með sérstaka hástyrkleikasteypu og með blöndun steypunnar á staðnum í steypubíl þegar langt er í næstu steypustöð. Nýja slitsterka steypan, sem er hálfsjálfpakkandi og þarf því ekki að titra við niðurlögn, er án loftblendis og frostþolin með um 70 MPa styrk eftir tvo daga og um og yfir 100 MPa styrk eftir 28 daga. Flögnun eftir frostþolsmælingar samkvæmt SS 137244 reynist að meðaltali vera um 0,01 kg/m2.

Ólafur H. Wallevik er forstöðumaður og Björn Hjartarson deildarstjóri á Rannsóknastofu byggingariðnaðarins á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þessi grein er hluti af ritröðinni Nýsköpun og rannsóknir sem varpar ljósi á fjölbreyttar vísindarannsóknir og nýsköpunarstarf sem unnið er að hérlendis. Greinarnar eru skrifaðar af starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og eru úr ársskýrslu miðstöðvarinnar. Nánari upplýsingar um Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru á www.nmi.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×