Handbolti

Þýsku úrvalsdeildinni í handbolta frestað fram í maí

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Petersson og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen sitja  sem stendur í 6. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar
Alexander Petersson og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen sitja  sem stendur í 6. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar Vísir/Getty

Þjóðverjar stefna á að hefja leik að nýju í úrvalsdeildinni í handbolta þann 16. maí næstkomandi. Mögulega gæti það þó farið svo að deildin verði einfaldlega blásin af. 

Þetta kom fram á vefsíðu deildarinnar fyrr í dag.

Öllum leikjum í þýska handboltanum var frestað ótímabundið í byrjun mars vegna COVID-19 en áætlað var að leikar myndu hefjast aftur þann 23. apríl. Nú er ljóst að engar líkur eru á að hægt verði að hefja leik þegar sá 23. gengur í garð og því hefur deildinni verið frestað um tæpan mánuð til viðbótar. 

Stefnt er að því að hefja leik þann 16. maí en það fer allt eftir því hvernig ástandið í Þýskalandi verður á þeim tímapunkti. Ef kórónuveiran verður enn jafn skæð þá og undanfarið er möguleiki að deildinni verði einfaldlega aflýst. 

Forráðamenn félaganna sem skipa úrvalsdeildina staðfestu þetta einnig í dag. Hvernig nákvæmlega því verður háttað á eftir að koma í ljós. Það hefur þó verið staðfest að ekkert lið myndi falla og liðin í B-deildinni ættu enn möguleika á að komast upp í úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×