Innlent

Anna Pála vill 5. sætið hjá Samfylkingunni í Reykjavík

Anna Pála Sverrisdóttir.
Anna Pála Sverrisdóttir.

Anna Pála Sverrisdóttir, meistaranemi í lögfræði, sækist eftir 5. sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Helsta baráttumál Önnu Pálu á þingi verður að gera ungu fólki kleift að lifa og starfa á Íslandi í nánustu framtíð. ,,Ég verð ötull talsmaður menntunar og námsmanna og þess að við notum menntakerfið til að koma okkur aftur á flug. Húsnæðismál eru annað lykilatriði fyrir ungt fólk og þar vil ég m.a. nota tækifærið sem gefst núna til að búa til almennilegan leigumarkað. Atvinnuleysi hittir ungt fólk verst fyrir og ég mun berjast fyrir að því verði mætt með sértækum aðgerðum meðan við komum fótunum undir atvinnulífið aftur," segir Anna Pála.

Aðild að ESB er stærsta hagsmunamálið

Ungum barnafjölskyldum þarf að huga sérstaklega að og lengja fæðingarorlofið um leið og hægt verður, að mati Önnu Pálu. ,,Til lengri tíma er síðan stærsta hagsmunamálið að við göngum í Evrópusambandið því við eigum ekki að sætta okkur við einangrun. Ég er mikill alþjóðasinni og tel framtíð Íslands undir því komna að taka þátt á alþjóðavettvangi. Hér innanlands vil ég líflegt fjölmenningarsamfélag."

,,Ég treysti mér og öðrum jafnaðarmönnum best til að forgangsraða í þágu velferðar í erfiðleikunum framundan og byggja upp land sem er spennandi að búa í: Ísland jafnréttis, virkara lýðræðis og umhverfisverndar," segir Anna Pála.

Langt komin með masterspróf í lögfræði

Anna Pála er fædd 19. september 1983. Hún er langt komin með masterspróf í lögfræði með sérhæfingu í þjóðarétti og hefur unnið lögfræðistörf á Persónuvernd og þar áður sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hún var oddviti Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, og á að baki setu í Háskólaráði HÍ og stjórn LÍN auk fjölda annarra félagsstarfa. Í dag er hún formaður Ungra jafnaðarmanna.

,,Á næstu dögum verður síðan mín, annapala.is, opnuð. Samhliða þessari tilkynningu fer í loftið facebook-síða mín þar sem allir geta gerst stuðningsmenn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×