Innlent

Nefnd um flutning heilbrigðisþjónustu bíður enn svara

Nefnd um flutning heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga skilaði áliti sínu fyrir rúmu ári síðan og bíður enn viðbragða. Ástæðan fyrir biðinni tregða sveitarfélaga til sameiningar, segir heilbrigðisráðherra.

Nefndin taldi flutning verkefna á sviði heilbrigðismála frá ríki til sveitarfélaga þjóðhagslega hagkvæman og einnig líklegan til að efla sveitarstjórnarstigið og gera þjónustuna einstaklingsmiðaðri. Í viðtali á NFS í gær gagnrýndi Dagur B. Eggertsson, heilbrigðisráðherra fyrir að hafa ekki tekið mið af niðurstöðum nefndarinnar og enn þyrfti að bíða. Hann sagði liggja á því að færa þjónustuna því það væri allra hagur að gera heilbrigðisþjónustuna nálægari og lýðræðislegri.

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, segir engan ágreining ríkja um flutning heilbrigðisþjónustunnar til sveitarfélaga. Hann segir að nefndin hafi unnið eftir þeirri forsendu að sameining sveitarfélaga yrði að veruleika. Í ljósi þess að svo var ekki hafi forsendur því breyst. Heilbrigðisráðherra tleur jafnframt skynsamlegt að færa heilbrigðisþjónustuna til sveitarfélaganna og segir að þar sem sameining hafi brugðist þurfi að endurskoða forsendur og sjá hver framvindan verður.

Hann sagði jafnframt að þessi verkefni yrðu ekki leyst nema á landsvísu eða með því að gera þjónustusamninga við einstök sveitarfélög og að það sé flókið og mikið verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×