Erlent

Gaddafí segir Nato skorta úthald

Múammar Gaddafí virðist ekki af baki dottinn þrátt fyrir að uppreisnarmenn ráði nú lögum og lofum í stærstum hluta Líbíu.
Múammar Gaddafí virðist ekki af baki dottinn þrátt fyrir að uppreisnarmenn ráði nú lögum og lofum í stærstum hluta Líbíu.
Bardagar standa enn yfir í Líbíu, mánuði eftir að uppreisnarmenn náðu völdum í höfuðborginni Trípólí. Uppreisnarmenn segjast nú hafa náð á sitt vald hluta borgarinnar Sabha, sem er eitt af síðustu vígjum stuðningsmanna Gaddafís fyrrverandi einræðisherra. Hann sendi frá sér ávarp í morgun.

Þá er enn barist í borginni Sirte, fæðingarborg Gaddafís og í Bani Walid en í gær bárust óstaðfestar fregnir þess efnis að Saif Al Islam sonur Gaddafís væri í borginni sem þykir benda til þess að Gaddafí sjálfur sé þar einnig. Uppreisnarmenn fullyrða að þeir séu við það að ná fullum yfirráðum yfir Sabha, en það myndi þýða að Gaddafí og föruneyti hans gæti ekki forðað sér yfir til Níger.

Stuðningsmenn Gaddafís hafa engu að síður veitt harða mótspyrnu, sérstaklega í Bani Walid og í Sirte. Nú safna uppreisnarmenn liði fyrir utan síðarnefndu borgina og hafa hundruðir fjölskyldna flúið hana til að forða sér frá komandi átökum.

Í ávarpi sem spilað var á Sýrlenskri ríkissjónvarpsstöð í dag segir Múammar Gaddafí kokhraustur að ástandið í landinu sé skrípaleikur sem geti aðeins átt sér stað á meðan Nato beiti loftárásum. Það muni bandalagið ekki geta gert endalaust og því sé ómögulegt að kollsteypa því kerfi sem hann hafi komið á í landinu. Hann og hans menn muni því hafa sigur að lokum.

„Stjórnmálakerfið í Líbíu byggir á afli fólksins,“ sagði hann meðal annars. „Það er engin leið að brjóta niður það kerfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×