Innlent

Hóteleigandi brjálaður út í borgina

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Framkvæmdir við Skólavörðustíg.
Framkvæmdir við Skólavörðustíg.

Hóteleigandi við Skólavörðustíg stakk upp á því að Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, kæmi og bæði viðskiptavini sína afsökunar á því að vatn var tekið af hótelinu í gær og afhenti þeim um leið miða í Sundhöllina.

Frá klukkan sjö í gærmorgun til fjögur seinnipartinn var vatnslaust á Skólavörðustíg. Tilkynning þess efnis barst frá Orkuveitu Reykjavíkur daginn áður en framkvæmdirnir hófust. Eðlilegra hefði verið að vatnið væri tekið af um nóttina að mati Ragnars Guðmundssonar, eiganda Hótel Adams við Skólavörðustíg.

,,Ég hringdi í Jakob Frímann Magnússon og spurði hvað ég ætti að gera. Þá kom upp sú hugmynd að ég fengi miða til að láta fólk fá til að fara í Sundhöllina. Á móti stakk ég upp á því að hann kæmi með Ólaf borgarstjóra með sér svo hann gæti beðið fólk afsökunar um leið og hann afhenti miðanna," segir Ragnar og bætir við að Ólafur hafi ekki látið sjá sig.

Frá Hallgrímskirkju. Framkvæmdir við Skólavörðustíg.

Hótelgestum Ragnars hefur fækkað um 70% miðað við seinasta ár og kennir hann tímasetningu framkvæmdanna við götuna um þann samdrátt.

Ragnar gagnrýnir embættismenn borgarinnar harðlega og þá sér í lagi fyrir framgöngu þeirra í málefnum Skólavörðustígs. ,,Embættismenn stjórna borginni enda er alltaf verið að skipta um pólitíkusa. Embættismennirnir eru alltaf að sýna að það eru þeir sem hafa valdið."

Breytingarnar á Skólavörðustíg eiga rétt á sér að mati Ragnars sem segir að eigendur fasteigna og rekstraraðilar við götuna hafi á fundi í febrúar lagt til að framkvæmdirnar hæfust í janúar á næsti ári. Ekki var tekið tillit til tillögunnar. ,,Embættismenn borgarinnar ákveða að gera eitthvað þegar þeim dettur það í hug."

,,Ég hugsa að Orkuveitan hefði gaman að setja nýjan rafmagnskapal inn í Kringluna. Það væri hægt að leggja hann á milli 15. og 25. desember og hafa rafmagnslaust dagana 20. til 24. desember. Það er alveg rétti tíminn og yrði vafalaust vinsælt," segir Ragnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×