Innlent

Vilja auðveldara aðgengi að smokkum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Aukið aðgengi að smokkum, kynfræðsla, veggjakrot og tónlist er meðal þess sem ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur áherslu á í nýrri skýrslu. Ungmennin funduðu með bæjarstjórninni í dag og skýrðu það sem að þeirra mati má fara betur í bænum þeirra.

Það var hugur í ungmennunum í Hafnarborg í dag þegar þau kynntu skýrslu sína sem er afrakstur Ungmennaþings frá í vetur. Til fundarins voru mættir bæði fulltrúar Ungmennaráðs og bæjarstjórnar.

Ingimar Bjarni Sverrisson formaður ráðsins segir helstu mál hafa verið forvarnir, menning og skipulagsmál sem ráðið beindi spjótum sínum að. Meðal annars var lagt til að bæta aðstöðu fyrir tónlistarflutning og stytta biðlista eftir tónlistarnámi. Aðstaða fyrir graff, eða veggjakrot var ofarlega á lista, auk endurbóta á Suðurbæjarlaug. Auk þess var lögð áhersla á auðveldara aðgengi að smokkum og aukna kynfræðslu.

Gunnar Svavarsson forseti bæjarstjórnar segir þetta ferli skipta gríðarlega miklu máli fyrir bæjarstjórnina. Tillögurnar fari allar til vinnslu inn í ráðin og langflestar komi til framkvæmda. Gunnar segir þetta vera rétta hópinn til að koma með tillögur til handa ungu fólki í bænum.

Ungmennaþingið er haldið er árlega. Þar koma saman fulltrúar skóla og annarra stofnana og leggja fram stefnumál. Í vetur olli afstaða til gæludýra klofningi innan ráðsins, en ákveðið var að taka ekki afstöðu til álversins í Straumsvík, þar sem það þótti of stórt mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×