Hinn 29. apríl árið 2016 var þyrla að gerðinni Airbus Super Puma H225 að flytja starfsmenn á olíuborpallinum Gullfaxa í Norðursjó til Bergen í Noregi þegar aðal spaði hennar losnaði skyndilega af þyrlunni með þeim afleiðingum að hún hrapaði til jarðar á Þurey. Allir um borð, tveggja manna áhöfn og ellefu farþegar létust.
Sams konar slys hafði átt sér stað árið 2012 í Skotlandi þar sem 16 manns fórust og í tvígang til viðbótar hafa þyrlur sömu gerðar nauðlent á sjó án mannfalls vegna þess að gírkassi þeirra brotnaði. Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Noregi hefur gefið út lokaskýrslu um slysið í Þurey þar sem lagðar eru fram tólf tillögur til úrbóta og beinast þær bæði að framleiðandanum Airbus og Flugöryggisstofnun Evrópu.

Frá því slysið varð hafa starfsmenn olíuborpalla í Noregi og Bretlandi neitað að fara um borð í þyrlur þessarar tegundar og árgerðar.
Norskt fyrirtæki hefur boðið Landhelgisgæslunni að yngja upp tvær Super Puma þyrlur og taka þyrlur sömu árgerðar í staðinn fyrir hagstæða leigu.
Landhelgisgæslan hugsar sinn gang
Þegar leitað var viðbragða hjá Gæslunni í dag við skýrslu norsku rannsóknarnefndarinnar bárust þessi svör:„Skýrsla Rannsóknarnefndar flugslysa í Noregi vegna þyrluslyssins hörmulega í Turøy árið 2016 er viðamikil og sérfræðingar Landhelgisgæslunnar þurfa á næstu vikum að kynna sér efni hennar áður en hægt er að tjá sig um hana. Landhelgisgæslan mun sömuleiðis ráðfæra sig við erlenda sérfræðinga. Í fljótu bragði er fátt sem kemur á óvart í skýrslunni en of snemmt er að tjá sig um hana að öðru leyti á þessum tímapunkti.“Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segir stofnunina fylgjast vel með öllum rannsóknarskýrslum vegna loftfara sem skráð séu á Íslandi.

Sérstaklega yrði leitað umsagna hjá Flugöryggisstofnun Evrópu sem sé í samskiptum við framleiðandann og gefi út leiðbeiningar og viðvaranir, enda gildi skráning loftfara hér um alla Evrópu.
„Allt í þágu flugöryggis. Þannig að við munum aldrei slá af kröfum um mesta flugöryggi sem við getum fengið,“ segir Þórólfur Árnason.