Innlent

Hraðakstur eykst í höfuðborginni

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Fleiri hafa verið teknir fyrir of hraðan akstur í höfuðborginni nú samanborið við sama tíma í fyrra. Sjálfvirkar hraðamælingar virðast ekki alltaf ná að slá á hraðann.

Í framhaldi af fjölmörgum kærum sem lögreglan á landinu hefur lagt fram undanfarna sólarhringa vegna gríðarlegs ökuhraða hafa vaknað spurningar hvort nægilega vel sé staðið að fræðslu og hvort ekki þurfi að auka enn frekar við mælingar og nýta þá til þess sjálfvirkan búnað eins og í Hvalfjarðargöngum. Hann virðist þó ekki duga til að slá á alla.

Kristján Ólafur Guðnason, aðst.yfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglunnar í höfuðborginni, segir að nærri 5% þeirra sem aki um Hvalfjarðargöng fái sekt vegna hraðaksturs. Á hinn bóginn sé hraðinn þar lægri en annars staðar. Hann segir að áherslum hafi nokkuð verið breytt í eftirliti. Myndavélabíll sem er ómerktur fari nú inn í borgarhverfi og mælir þar.

Hið hörmulega slys á Breiðholtsbrautinni í fyrrinótt, þar sem ökumaður bifhjóls, hálsbrotnaði í árekstri við bíl, hefur kallað fram sterk viðbrögð almennings. Lögreglan í Árnessýslu hefur nú lýst eftir vitnum að slysinu og að ofsaakstri tveggja bifhjóla yfir Hellisheiðina sem var undanfari slyssins. Lögreglan telur að meðalhraði hjólanna hafi verið yfir 200 km. á klukkustund.

Ef skoðaðar eru tölur yfir hæstu mælingar í höfuðborginni síðustu þrjú ár kemur í ljóst að árið 2005 var hæsta mælingin 165 km á klst, í fyrra var fór sá sem hraðast ók innan borgarmarkanna á 193 km. hraða á klst. Í ár ók sá sem hraðast hefur mælst á 165 km hraða á klst.

Samkvæmt þeim sjálfvirku mælum sem reknir eru af öðrum en lögreglu í nágrenni höfuðborgarinnar virðist hraðinn vera nokkuð áþekkur því sem hann verið hefur síðustu ár. Þeim virðist hins vegar fjölga sem kitla pinnann. Árið 2005 voru rösklega 4,400 teknir fyrir of hraðan akstur í borginni, þeir voru ríflega 6,200 í fyrra en eru nærri 6,400 á þessu ári. Tölurnar eru frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og ná frá janúar til júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×