Innlent

Hálka eða hálkublettir víða um land

Stefán Árni Pálsson skrifar
Snjóþekja er á Hellisheiði en hálka í Þrengslum.
Snjóþekja er á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Vísir/Stefán
Kjarni hríðarveðursins verður framan af degi yfir norðvestanverðu landinu en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vindhraði á bilinu 15-20 metrar á sekúndu, hríð og blinda. Nær suður í Dali og á Bröttubrekku svo og suður í Norðurárdal.

Hríðarbakkinn þokast til austurs og um miðjan dag versnar mjög á Eyjafjarðarsvæðinu og undir kvöld norðaustanlands, allt austur á Vopnafjörð. Suðvestanlands verður viðvarandi skafrenningur meira og minna í allan dag, einkum á fjallvegunum.

Snjóþekja er á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Á Suðurlandi er annars víða hálka eða hálkublettir.

Flughált er á Lyngdalsheiði. Hálka er á Kjalarnesi og ófært eru um Kjósarskarð. Á Vesturlandi eru víðast hálkublettir á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Fróðárheiði er ófær. Verið er að moka Bröttubrekku. Mjög hvasst er á  Holtavörðuheiði og eins í Staðarsveit og hálka á báðum stöðum.

Slæmt veður er á Vestfjörðum en langt komið að opna milli helstu þéttbýlisstaða. Verið er að moka Kleifaheiði. Stórhríð er á Klettshálsi og Hjallahálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þar er ófært og biðstaða með mokstur vegna veðurs. Þungfært er í Djúpinu en þæfingsfærð á Innstrandavegi.

Vetrarfærð er á Norðurlandi, víða nokkur hálka eða snjóþekja en þokkalega fært. Á Austurlandi er víða nokkur hálka eða snjóþekja. Verið er að opna Vatnsskarð eystra og Fjarðarheiði. Mikið er autt með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×