Körfubolti

Enginn Benni, Ingi eða Finnur að þjálfa hjá KR í fyrsta sinn í þrjá áratugi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, Finnur Freyr Stefánsson og Benedikt Guðmundsson.
Ingi Þór Steinþórsson, Finnur Freyr Stefánsson og Benedikt Guðmundsson.

Ingi Þór Steinþórsson var rekinn frá KR á dögunum og í gær þá hætti Benedikt Guðmundsson líka. Þetta eru tveir af reyndustu og sigursælustu þjálfurum KR frá upphafi.

Finnur Freyr Stefánsson er líka á heimleið en fór ekki aftur í KR heldur tók við þjálfum meistaraflokks karla hjá Val. Enginn þeirra þriggja verður því að þjálfa í DHL-höllinni tímabilið 2020-21.

Þessir þrír hafa allir unnið frábært starf hjá KR undanfarna áratugi, bæði hjá meistaraflokksliðunum en líka hjá yngri flokkunum. Fjölmargir titlar hafa komið í hús bæði hjá meistaraflokki sem og yngri flokkum.

Það eru nefnilega ekki margir körfuboltamenn í KR sem hafa ekki verið þjálfaðir af einum þeirra og fjölmargir hafa spilað fyrir þá alla.

Finnur Freyr, Ingi Þór og Benedikt eru líka þeir þrír þjálfarar sem hafa unnið flesta leiki á Íslandsmóti síðan að úrvalsdeild karla var tekin upp. Ingi Þór hefur unnið flesta deildarsigra en Finnur hefur unnið flesta leiki í úrslitakeppni og flesta leiki samanlagt.

Allir hafa þessir þrír gert karlalið KR að Íslandsmeisturum oftar en einu sinni. KR vann fimm ár í röð undir stjórn Finns frá 2014 til 2018, Benedikt gerði KR að Íslandsmeisturum 2007 og 2009 og þá vann KR Íslandsmeistaratitilinn undir stjórn Inga Þórs 2000 og 2019.

Þegar menn fóru að kanna betur hversu langt er síðan að enginn þessara þriggja var að þjálfa hjá KR þá kom í ljós að það þarf að fara allt til 1989-90 tímabilsins til að finna vetur hjá KR sem hvorki Benedikt, Ingi Þór eða Finnur voru að þjálfa flokk hjá KR.

Flestir sigurleikir í úrvalsdeild karla sem þjálfarar KR:

(Deildarleikir + leikir í úrslitakeppni)

  • Finnur Freyr Stefánsson 136 sigrar (91+45)
  • Ingi Þór Steinþórsson 124 (101+23)
  • Benedikt Guðmundsson 90 (72+18)
  • Laszlo Nemeth 62 (54+8)
  • Jón Sigurðsson 46 (40+6)
  • Hrafn Kristjánsson 42 (41+11)
  • Páll Kolbeinsson 39 (35+4)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.