Viðskipti innlent

Gætu sætt sektum ef skráningu raunverulegra eigenda er ekki lokið fyrir mánaðamót

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Nú er hægt að ganga frá skráningu raunverulegra eigenda á þjónustuvef Skattsins.
Nú er hægt að ganga frá skráningu raunverulegra eigenda á þjónustuvef Skattsins. Vísir/Vilhelm

Á þjónustuvef Skattsins hefur nú verið sett upp síða þar sem félög geta sinnt þeirri skyldu sinni til að skrá raunverulega eigendur með rafrænum hætti. Félög hafa til 1. mars næstkomandi til að ganga frá þessari skráningu ellegar gætu þau átt von á sektum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í fyrra voru sett lög á Alþingi þar sem kveðið er á um skráningu raunverulegra eigenda í félögum og var fyrirtækjaskrá falið að taka á móti þeim skráningum. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að áhersla sé lögð á það að „þessari skráningu verði komið í viðunandi horf í tíma,“ en skráning þessi er ein af þeim atriðum sem urðu til þess að Ísland hafnaði á gráum lista FATF-hópnum svokallaða, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Að mati hópsins var skortur á fullnægjandi skráningu raunverulegra eigenda í félögum hér á landi og er þetta þar af leiðandi eitt af þeim atriðum sem þurfa að komast í lag svo að Ísland komist af gráa listanum, sem stjórnvöld binda vonir við að verði síðar á þessu ári.

„Félögum ber að ljúka skráningu fyrir 1. mars nk. og eftir það er heimilt að beita skráningarskylda aðila sektum hafi þeir látið hjá líða að veita upplýsingarnar, eða fella skráningu lögaðilans niður,“ segir í tilkynningunni. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu nýverið að vinnu miðaði vel áfram við að bæta úr þeim atriðum sem enn út af standa sem FATF gerði athugasemdir við. Vonast sé til þess að Ísland komist af gráa listanum þegar FATF-hópurinn fundar í október á þessu ári.


Tengdar fréttir

Vonar að Ísland komist af gráum lista í október

Vera Íslands á gráa listanum hefur að sögn Seðlabanka Íslands enn sem komið er ekki haft áhrif á starfsemi aðila á borð við tryggingafélög og lífeyrissjóði á Íslandi.

Grái listinn ekki steinn í götu Nasdaq á Íslandi

Það að Ísland sé á gráa lista FATF hefur ekki áhrif á innleiðingu Nasdaq verð­bréfamiðstöðvar á nýju uppgjörskerfi sem á að klárast næsta vor. Seðlabankinn segir að upp hafi komið tilvik þar sem greiðslur hafa tafist eða verið stöðvaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×