Skoðun

Við vinnum að almannaheill

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
Því fylgir ábyrgð að kjósa sér fulltrúa á Alþingi. Það er ekkert grín. Fólk vill sjá nýjar áherslur og ný andlit. Þetta er skiljanlegt sérstaklega í ljósi þess að þeir sem hafa stjórnað landinu á þessari öld hafa gleymt fólkinu í landinu, heimilunum og fjölskyldunum sem hafa setið þolinmóð á hakanum og borgað brúsa óstjórnar sem leiddi til efnahagshruns.

Fyrst fengum við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem færðu okkur sýndargóðærið mikla. Hugmyndafræði einkavæðingar og hagvaxtar sem sköpuðu farveg fyrir lítinn hluta þjóðarinnar til að stela nánast frá okkur öllum verðmætum og skilja fólkið í landinu, heimilin og fyrirtækin, eftir stórskuldug. Hugmyndafræði ósjálfbærni, ofneyslu og græðgi sem hefur tröllriðið hinum vestræna heimi of lengi og leiðir þjóðir í kreppu.

Vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna tók ekki við góðu búi fyrir fjórum árum. En þá tók við ölmusupólitík sem snérist að mestu um að ná sem mestu inn í ríkiskassann með auknum álögum á heimili, fyrirtæki og einstaklinga, meðan skuldavandi fólksins jókst dag frá degi. Heimilin sátu eftir en lausnirnar miðuðust við að byggja upp öflugt bótakerfi sem hálf þjóðin þiggur nú bætur frá í stað þess að leysa skuldavanda þjóðarinnar, leiðrétta stökkbreytt lán og afnema verðtrygginguna og auka þannig ráðstöfunartekjur heimilanna.

Það er gott að fá nýtt fólk á Alþingi en það er líka mikilvægt að þangað komið fólk með reynslu. Í forystusveit Dögunar er baráttufólk sem hefur af eldmóði unnið að almannaheill í mörg ár. Fólk sem hefur verið í forystu í frjálsum félagasamtökum og m.a. barist þar fyrir hagsmunum heimilanna og verndun hálendis Íslands. Barist gegn óréttlæti, eyðileggingu og mismunun.

Í Dögun er fólk sem sér þau samfélagslegu verðmæti sem felast í frjálsum félagasamtökum þar sem fjöldi manns leggur á sig mikið sjálfboðaliðastarf til að vinna að almannaheill. Við viljum vinna með  fólkinu í landinu að almannaheill og leitum stuðnings ykkar til að verða talsmenn fólksins á Alþingi.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir fyrrverandi formaður Landverndar

Oddviti Dögunar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Sjá meira


×