Lífið

Frægur pólskur dúett til landsins

Marín Manda skrifar
Dj Adamus og Ada Szulc stefna á að ferðast um allan heim og upplifa framandi staði. Ísland varð fyrir valinu að þessu sinni.
Dj Adamus og Ada Szulc stefna á að ferðast um allan heim og upplifa framandi staði. Ísland varð fyrir valinu að þessu sinni.
Söngkonan Ada Szulc og Dj Adamus njóta gífurlegra vinsælda í heimalandi sínu, Póllandi, fyrir tónlist sína. Milli jóla og nýárs koma þau til Íslands.

Ísland hefur verið vinsæll viðkomustaður meðal stjarnanna undanfarin ár, hvort sem er innan kvikmynda- eða tónlistariðnaðarins og færist það enn í aukana. Nú hafa pólskar stjörnur einnig komist á bragðið en milli jóla og nýárs er von á tónlistartvíeyki til landsins sem hyggst taka upp tónlistarmyndband fyrir verkefnið „1000 places“.

Söngkonan Ada Szulc og Dj Adamus eru dúett sem njóta gífurlegra vinsælda í Póllandi um þessar mundir. Szulc vann X-Faktorkeppnina í Póllandi en hefur einnig sungið inn á pólskar kvikmyndir og pólska Disney-framleiðslu. Dj Adamus er best þekktur fyrir danstónlist sína en hann hefur samið tónlist síðastliðin tíu ár fyrir sjónvarp, leikhús og kvikmyndir. Lífið ræddi við Dj Adamus um væntanlega heimsókn.

Segðu örlítið frá verkefninu „1000 places“ eða 1000 staðir.



„Hugmyndin að verkefninu tengist ósk okkar um að heimsækja þúsund staði áður en við deyjum. Forsendan fyrir verkefninu er ekki aðeins tengd tónlistinni heldur einnig sjónrænni upplifun og þess vegna viljum við ferðast með tónlist okkar á áhugaverða og ótrúlega staði. Tónlistin er að vissu leyti innblásin af þeim stöðum sem sýndir eru í myndböndunum en sem dúett eru persónuleikar okkar og tónlistarbakgrunnur mismunandi.“

Um hvað fjallar lagið í myndbandinu sem tekið verður upp hér á landi?

„Titill pólsku útgáfunnar er „Allt eða ekkert“ og lýsir því örlítið að stundum missum við eitthvað allt of hratt. Stundum erum við of blind til að sjá smáu hlutina í kringum okkur og svo þegar við missum þá er of seint í rassinn gripið. Lagið minnir okkur á að gera eitthvað mikilvægt á hverjum degi þrátt fyrir að það sé lítið, því tíminn hleypur frá okkur öllum.

Enska útgáfan heitir Ocean og hefur annan texta. Hann tengist meira Íslandi og fegurð landsins. Þetta eru í raun tvö sjálfstæð verk.“ 

DJ Adamus og Ada Szulc
Hvenær er nýja platan væntanleg?



„Platan kom út 11. nóvember í Póllandi en við erum einnig að gera enska útgáfu af öllum lögunum og myndbönd á tveimur tungumálum svo að heimsfrumsýning er áætluð í byrjun 2014." 

Hafið þið ekki hugsað ykkur að vera hér yfir áramótin?



„Hluti af hópnum vill vera áfram á Íslandi þegar nýja árið gengur í garð en við hin verðum að fara til baka til Varsjár eftir tökurnar. Það er án efa mögnuð tilfinning að vera á svona köldum og fallegum stað þegar nýja árið færist yfir en á þessari stundu einbeitum við okkur að myndbandinu, sem er algjörlega að gleypa okkur.“

Hvers vegna varð Ísland fyrir valinu?



„Áætlun okkar var að sýna ótrúlega hrífandi og skemmtilega staði í heiminum í okkar fyrsta myndbandi en við völdum fyrst Kúbu. Síðan fórum við til Japans og nú er komið að Íslandi en þar er hægt að að ná skotum af magnþrungnum tilfinningum, spennandi menningu og landslagi. Á Kúbu vildum við fanga tilfinninguna af hlýju loftslagi og í Tókýó náðum við að sýna framúrstefnulega tæknimenninguna.

Á Íslandi viljum við tengja betur við náttúruna en tónlistin okkar býður upp á allan þennan fjölbreytileika. Við höfum fengið mikinn stuðning frá góðum Íslendingum en án umboðsmannsins okkar, Magdalenu Dybka, og fleiri á borð við Gunnhildi Gunnars, Söru McMahon, Andra Frey, Alexander Zaklynsky og Boston-fólkið væri þetta ekki framkvæmanlegt. Við erum mjög spennt og hlökkum til að upplifa þetta ævintýri því þetta myndband er okkur afar mikilvægt,“ segir Dj Adamus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.