Innlent

Áttatíu ósáttir kennaranemar

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Hjördís Birna Hjartardóttir
Hjördís Birna Hjartardóttir
Umboðsmanni Alþingis hefur borist formleg kvörtun um 80 kennaranema sem telja að menntamálaráðuneytið hafi brotið á þeim við útgáfu starfsleyfa til kennara.

Að sögn Hjördísar Birnu Hjartardóttur, lögmanns kennaranemanna, er kvörtunin tvíþætt. Hún snýr annars vegar að viðbrögðum Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík þar sem umræddir nemendur stunduðu nám sitt.

Nemendurnir telja að háskólarnir hefðu átt að laga kennaranámið að kröfum nýrra laga sem sett voru 2008 og kynna breytingarnar. Að mati umbjóðenda Hjördísar Birnu fór hvort tveggja úrskeiðis.

Hins vegar lýtur kvörtun kennaranemanna að vinnubrögðum menntamálaráðuneytisins við útgáfu leyfisbréfa til samnemenda umbjóðenda Hjördísar Birnu. Ráðuneytið hafi gefið út leyfisbréf til 15 til 20 nemenda sem stunduðu nám á sama tíma og umbjóðendur hennar.

Ráðuneytið hafi gefið þær skýringar að þetta hafi verið mistök en á sama tíma haldið áfram að gefa út leyfisbréf til valinna nemenda í meira en ár eftir að ráðuneytinu höfðu borist ábendingar um málið. Hjördís Birna segir jafnframt að ráðuneytið hafi neitað að veita aðgang að upplýsingum um hvort fleiri dæmi séu um mismunun.

Hjördís Birna segir að því hafi ekki annað verið í stöðunni en að kvarta formlega til umboðsmanns Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×