Lífið

Randver leikur John Cleese

Randver í hlutverki John Cleese og Frímann í hlutverki Hilmis Snæs.
Randver í hlutverki John Cleese og Frímann í hlutverki Hilmis Snæs.
Nú þegar Bretland virðist hafa unnið ímyndarstríðið við litla Ísland vegna Icesave-deilunnar fáum við Íslendingar góða hjálp. Sjálfur Frímann Gunnarsson, sem getið hefur sér gott orð í þáttunum Sigtið á Skjá einum, hefur sett fram hugmynd að ímyndarauglýsingu á bloggsíðu sinni (frimann.blog.is).

„Það hefur verið æpandi þögn varðandi afstöðu Frímanns til bankafallsins og milliríkjadeilunnar við Bretland," segir Gunnar Hansson, sem þekkir Frímann betur en flestir. „Hann upplifir sig sem skilnaðarbarn í þessari deilu því þótt Frímann hafi alist upp á Ísland þá menntaði hann sig í Bretlandi. Þar varð hann að þeim heimsborgara sem hann er."

Hugmynd Frímanns um ímyndarauglýsinguna er mjög metnaðarfull. Hann sér fyrir sér að John Cleese leiki breskan leigusala, Sir Winterbottom, sem réttir íslenskum námsmanni seðlabúnt þar sem námsmaðurinn (leikinn af Hilmi Snæ eða Ingvari E.) liggur bláfátækur í göturæsinu. Í hugmyndinni er Randver Þorláksson í hlutverki Cleese en Frímann leikur námsmanninn. „Verði auglýsingin gerð, vonast Frímann til að hún verði fyrsta skrefið í að leysa þessa erfiðu deilu. Hann vonar að mamma og pabbi taki saman aftur."

Af Frímanni er það annars að frétta að hann fæst aðallega við ritstörf þessa dagana. „Bloggsíðan er hans vettvangur og þar mun hann birta ljóð og pistla á næstunni," segir Gunnar. „Svo var hann búinn að klára heila auglýsingaherferð fyrir Glitni. Herferðin var einmitt tilbúin föstudaginn áður en bankinn féll. Þar var hann með ýmsar ráðleggingar í fjármálum og var auðvitað eins og fíll í postu-línsbúð. Þetta voru drepfyndnar auglýsingar en þættu líklega hálf óviðeigandi núna. Kannski verða þær notaðar seinna."

- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.