Skoðun

Sígild leikrit rykfalla aldrei

Halldór Þorsteinsson skrifar
Þótt einkennilegt megi heita ganga sumir leikstjórar með þá flugu í höfðinu að þeir geti betrumbætt sígild verk með djörfum leikbrellum sínum og áróðri og það ekki aðeins frá eigin brjósti heldur líka frá skoðanasystkinum sínum. Að mínu viti eiga sígild verk aldrei að þjóna þeim vafasama tilgangi að vera einskonar stökkpallur þar sem leikstjórar og samherjar þeirra geta komið á framfæri persónulegum lífsskoðunum sínum og samherja sinna. Sígild leikrit standa einlægt fyrir sínu.

Nýjasta hneykslið í þessum efnum er Hús Bernarda Alba eftir Fr. Garcia Lorca. Mér er spurn hvernig Kristín Jóhannesdóttir gat leyft sér að hrófla jafn gróflega við verki spænska snillingsins eins og hún gerði. Fráleitt þótti mér með öllu að fela karlmanni aðalhlutverkið og svo bætti það ekki úr skák þegar hamast var við að troða upp á leikhúsgesti persónulegum og pólitískum áróðri ásamt uppáþrengjandi viðaukum frá samherjum sínum. Allt þetta brölt var í einu orði sagt hreint og beint skemmdarverk á leikritinu. Væri því ekki réttast að kalla þessa sýningu, Hús Bernarda Alba og Hús Kristínar Jóhannesdóttur. Hið fyrrnefnda er ákaflega hátt metið, en hið síðarnefnda er í lægri kantinum, ef svo má að orði komast.

Nú ætla ég að taka mér það bessaleyfi að vitna í gamlan leikdóm minn (Mbl. 12.nóv. 1988) undir fyrirsögninni: „Hamlet í nýjum fötum frá Saumastofu Kjartans“, en þar segir m.a.: „Hvernig getum við hér norður á Íslandi verið orðin hundleið á „hefðbundnum“ og „steinrunnum“ leikmáta eða flutningi á verkum Williams Shakespeares, ef miðað er við þau fáu, já alltof fáu skipti, sem þau hafa verið sviðsett hér. Óþarfi er því með öllu að þurrka rykið af þessum „safngripum“ sem Hallmari Sigurðsyni er svo tíðrætt um og sem skoðanabróðir minn, Helgi Hálfdánar hefur þegar réttilega bent á í skeyti sínu til leikhússtjórans.“

Versta dæmið um svona óskynsamlegt og ótímabært fikt við sígilt leikrit var sýningin á Pétri Gaut eftir Henrik Ibsen undir leikstjórn Baltasars Kormáks fyrir nokkrum árum. Þar var öllu brenglað eða hrært saman þannig að það var ekki nokkur leið fyrir áhorfendur að fylgjast með framvindu sjónleiksins og misstu því alveg af þræðinum, enda var þetta ein endalaus flækja. Þessa sýningu hef ég æ síðan kallað Pétur Graut. Þessi mistök þín, Baltasar Kormákur, voru þér ekki til sóma, en mistök eru til þess að læra af þeim, en hitt máttu vita að ég fagna velgengni þinni í kvikmyndaheiminum og það af heilum hug.

Að endingu langar mig til, lesendur góðir, að undirstrika eina mikilvæga staðreynd, en hún er sú að við getum alla vega prísað okkur sæla að nútímatónlistarmenn myndu aldrei nokkru sinni taka upp á þeim fjanda að feta í fótspor þessara „listumbótasinnuðu“ leikstjóra með svipuðum hætti og þeir hafa gert, enda hafa Beethoven, Bach, Brahms, Mozart og Verdi gjörsamlega fengið að vera í friði fyrir svona vanhugsuðu fikti við verk sín, góðu heilli.

Lengi lifi listin og sömuleiðis hugsandi og næmir neytendur hennar.








Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×