Handbolti

Ragnar aftur til KA eftir fjórtán ára fjarveru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar í leik með Stjörnunni.
Ragnar í leik með Stjörnunni. vísir/vilhelm

KA heldur áfram að safna liði fyrir næsta tímabil. Í dag skrifaði Ragnar Snær Njálsson undir tveggja ára samning við félagið sem hann hóf ferilinn með.

Ragnar lék síðast með KA tímabilið 2005-06. Hann skoraði þá 62 mörk í 23 leikjum fyrir KA sem endaði í 6. sæti DHL-deildarinnar á síðasta tímabilinu áður en samstarfið við Þór hófst.

Ragnar tók handboltaskóna af hillunni í fyrra og lék með Stjörnunni seinni hluta tímabilsins. Hann lék svo með Garðbæingum allt síðasta tímabil. Liðið endaði í 8. sæti Olís-deildar karla og komst í bikarúrslit þar sem það tapaði fyrir ÍBV.

Auk Ragnars hefur KA fengið Ólaf Gústafsson og Árna Braga Eyjólfsson frá KIF Kolding, færeyska landsliðsmarkvörðinn Nicholas Satchwell og Jóhann Geir Sævarsson frá Þór. Dagur Gautason er hins vegar farinn til Stjörnunnar.

Ragnar, sem er 34 ára, hefur einnig leikið með HK, Dimou Thermaikou í Grikklandi og Bad Neustadt í Þýskalandi á ferlinum.

KA endaði í 10. sæti Olís-deildar karla á síðasta tímabili en ljóst er að það er hugur í KA-mönnum fyrir næsta tímabil.


Tengdar fréttir

Árni Bragi til KA

Mosfellingurinn Árni Bragi Eyjólfsson leikur með KA næstu tvö árin.

KA fær landsliðsmarkvörð

Handknattleiksdeild KA hefur fengið liðsstyrk fyrir næsta vetur með komu markvarðarins Nicholas Satchwell. Satchwell sem er fæddur árið 1991 er landsliðsmarkvörður Færeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×