Innlent

Lífshættulegt lóðabrask

Dæmi eru um að fasteignasalar ráðleggi landeigendum að þegja yfir dýraleifum sem dysjaðar eru á landi þeirra og taldar bera miltisbrand en að öðrum kosti kunni jarðirnar að falla í verði. Berist miltisbrandur í fólk getur hann leitt til dauða en um 10 slík tilfelli eru þekkt á Íslandi. Sigurður Sigurðarson, dýralæknir að Keldum, segir dæmi þess að fasteignasalar hafi ráðlagt fólki á ýmsum stöðum á landinu að segja ekki frá urðunarstöðum sem geyma sýktar dýraleifar. "Ég vil ekki segja hvaða fasteignasalar þetta eru en með því að upplýsa þetta vænti ég þess að þeir sjái að sér enda er hægt að varast smit af völdum miltisbrands ef menn þekkja urðunarstaðina. Á Austurlandi er vitað um tæplega 30 urðunarstaði en þeir eru einnig margir á höfuðborgarsvæðinu og vestur í Dölum," segir Sigurður. Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, segist ekki þekkja dæmi þess að fasteignasalar hafi vísvitandi með þessum hætti reynt að blekkja kaupendur. "Ef rétt reynist þá er ljóst að umræddir fasteignasalar eru ekki að fara að lögum hvað varðar upplýsingalöggjöf til kaupenda," segir Björn Þorri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×