Erlent

Fuglaflensan á mörkum Evrópu

Fuglaflensan mannskæða er nú komin að mörkum Evrópu. Rannsóknir á sýnum sem tekin voru úr fuglum í Tyrklandi hafa leitt í ljós afbrigði veirunnar sem er hættulegt mönnum. Tyrknesk yfirvöld segjast hafa náð að hefta útbreiðslu veirunnar. Um er að ræða sama fuglaflensu-afbrigðið og það, sem hefur valdið miklu tjóni í Asíu og kostað um sextíu manns lífið. Innflutningur á fuglakjöti og öðrum fuglaafurðum frá Tyrklandi var bannaður um leið og grunur lék á að veiran hefði greinst þar, en nú þegar staðfestar niðurstöður liggja fyrir þarf að grípa til frekari aðgerða. Sérfræðingar ESB gera ráð fyrir að niðurstöður úr sýnum í Rúmeníu liggi brátt fyrir, en gengið er út frá því að um sama stofn sé að ræða þar og í Tyrklandi. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir flensu hafa verið hvattir til að láta bólusetja sig í vetur. Ólíklegt er þó talið að venjulegar flensusprautur geti komið í veg fyrir fuglaflensu, en óttast er að veiran kunni að stökkbreytast og valda heimsfaraldri, ef fólk, sem þegar þjáist af venjulegri flensu, smitast af H5N1 afbrigðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×