Körfubolti

KR-ingar sagðir búnir að reka Inga Þór og ráða Darra í staðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar þá vann KR 101 af 153 leikjum sínu í deild (66 prósent) og 23 af 40 leikjum sínum í úrslitakeppni (58 prósent). Þetta eru sjö tímabil sem Ingi hefur þjálfað KR-liðið eða 1999-2004 og 2018-20.
Undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar þá vann KR 101 af 153 leikjum sínu í deild (66 prósent) og 23 af 40 leikjum sínum í úrslitakeppni (58 prósent). Þetta eru sjö tímabil sem Ingi hefur þjálfað KR-liðið eða 1999-2004 og 2018-20. Vísir/Daníel

Ingi Þór Steinþórsson hefur verið rekinn sem þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta hjá KR og Darri Freyr Atlason er sagður verða næsti þjálfari Íslandsmeistara KR í Domino´s deildinni.

Henry Birgir Gunnarsson og Kjartan Atli Kjartansson sögðu frá því í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport að Ingi Þór Steinþórsson yrði ekki áfram þjálfari KR-liðsins. Þetta voru ekki staðfestar fréttir en samkvæmt heimildarmönnum þeirra í Vesturbænum.

Bæði Ríkisútvarpið og karfan.is hafa líka heimildir fyrir því að KR-ingar hafi rekið Inga Þór Steinþórsson og að þeir séu að fara ráða hinn 25 ára gamla Darra Freyr Atlason.

KR-ingar voru með eitt elsta liðið í deildinni á síðustu leiktíð og yrðu þá með yngsta þjálfarann í deildinni. Darri er 22 árum yngri en Ingi Þór og yngri en stór hluti KR-liðsins.

Darri Freyr Atlason er 25 ára gamall og hefur ekki þjálfað áður meistaraflokk karla. Hann gerði hins vegar frábæra hluti með kvennalið Vals sem varð þrefaldur meistari undir hans stjórn í fyrra og var á góðri leið með að verja Íslandsmeistaratitilinn sinn í vor þegar keppni var hætt vegna kórónuveirunnar.

Darri er uppalinn KR-ingur og þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá KR tímabilið 2015–2016. Hann spilaði með Íslandsmeistaraliði KR tímabilið 2014-2015.

Ingi Þór Steinþórsson er 47 ára gamall og er eini þjálfari KR sem hefur unnið yfir hundrað deildarleiki í úrvalsdeild karla (101) en hann sló á nýloknu tímabili met Finns Freys Stefánssonar (91) yfir flesta deildarsigra sem þjálfari KR. Alls hefur Ingi Þór unnið tvo stóra titla sem aðalþjálfari KR en það eru Íslandsmeistaratitlarnir 2000 og 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×