Erlent

Miklar samgöngutruflanir í Frakklandi vegna verkfalls

Miklar truflanir eru nú á samgöngum í Frakklandi eftir að járnbrautarstarfsmenn, strætóbílstjórar og aðrir starfshópar í samgöngugeiranum hófu eins dags verkfall í morgun.

Verkfallinu er ætlað að þrýsta á Sarkozy Frakklandsforseta og fá hann til að endurskoða efnahagsáætlanir sínar. Áður höfðu franskir sjómenn lokað höfnum landsins til að mótmæla háu eldsneytisverði.

Það sem einkum fer fyrir brjóstið á þessum launþegum í Frakklandi eru áform stjórnarinnar að færa til eftirlaunaaldur opinberra starfsmanna um eitt ár eða upp í 41 árs aldurinn auk áforma um að skera verulega niður í fjölda opinberra starfsmanna. Kennarar og stúdentar eru einnig meðal þeirra hópa í Frakklandi sem mótmæla þessum áformum kröftuglega.

Talið er að um helming af lestarferðum í Frakklandi verði aflýst í dag og búist er við truflunum á flugferðum til og frá landinu. Þá mun enginn póstur verða borinn út í Frakklandi í dag því póstmenn eru einn af þeim hópum sem taka þátt í verkfallinu.

Sarkozy segir hinsvegar að áætlanir sínar séu nauðsynlegar fyrir efnahagslíf landsins sem verið hefur í mikilli lægð undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×