Lífið

Stefán Karl með nokkur tilboð á borðinu

Freyr Gígja Gunnarsson skrifar
Fer á kostum. Stefáni Karli er hrósað í hástert af bandarískum gagnrýnendum fyrir frammistöðu sína sem Trölli.
Fer á kostum. Stefáni Karli er hrósað í hástert af bandarískum gagnrýnendum fyrir frammistöðu sína sem Trölli.
„Það eru nokkur tilboð sem liggja á borðinu. Ég er hins vegar ekkert að pæla í því núna. Ég fer bara yfir málin með umboðsmanni í janúar og við leggjum upp árið í sameiningu," segir Stefán Karl Stefánsson. Leikaranum hefur verið hrósað í hástert fyrir leik sinn í söngleiknum um Trölla sem nú er sýndur fyrir fullu húsi í Boston. Stefán sagðist ekki hafa hugmynd um hvort þetta væru áframhaldandi verk í leikhúsi eða jafnvel kvikmyndahlutverk frá Hollywood. „Umboðsmaðurinn vill ekkert segja mér og það er líka bara gott. Ég ætla bara að einbeita mér að þessu verkefni og klára það með stæl."

Stefán segir það ekki hafa komið sér á óvart hversu mikla athygli verkið hafi fengið. Athyglin sem hann hafi sjálfur fengið hafi hins vegar komið honum í opna skjöldu. „Þetta er náttúrulega afrakstur af margra ára vinnu og þolinmæði. Þetta var eitthvað sem stefnt var að og það er gaman að sjá markmiðin sín rætast," segir Stefán og bætir við að nú þurfi bara að hamra járnið á meðan það er heitt.

Dómar sem hafa birst í bandarískum blöðum eru eiginlega allir á sömu lund. Stefán sé stjarna sýningarinnar og beri hana nánast uppi.„Frammistaða Stefáns Karls sem Trölli er næg ástæða til að fara með börnin á þessa sýningu," skrifar Jenna Schere, gagnrýnandi hjá Boston Herald. Gagnrýnanda Boston Globe, Louise Kennedy, tekst að halda sér á jörðinni hvað sýninguna varðar. Segir hana of langa. Kennedy bætir því hins vegar við að Stefán Karl fari á kostum og að nærvera hans standi upp úr í þær níutíu mínútur sem sýningin standi yfir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.