Körfubolti

Þóranna Kika spilar körfubolta í New York í stað Keflavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóranna Kika-Hodge Carr fer hér framhjá Helenu Sverrisdóttur í leik Keflavíkur á móti Val.
Þóranna Kika-Hodge Carr fer hér framhjá Helenu Sverrisdóttur í leik Keflavíkur á móti Val. Vísir/Bára

Iona Gaels tilkynnti á heimasíðu sinni að Þóranna Kika-Hodge Carr sé ein af sex nýjum leikmönnum liðsins en þar á meðal er ein hollensk stelpa. Hinir leikmennirnir eru Jenae Dublin, Hannah King, Anouschka Meijer, Jessica Rogers og Olivia Vezaldenos.

Iona Gaels keppir í Metro Atlantic Athletic deildinni og komst í fyrsta og eina skiptið í úrslitakeppni NCAA árið 2016. Billi Chambers er á sínu sjötta ári með liðið.

Iona skólinn er í New Rochelle hverfinu í New York sem varð einna verst út í baráttunni við kórónuveiruna en allt verður vonandi komið af stað á ný þegar skólinn hefst í haust.

Iona Gaels kynna þó ekki Þórönnu Kika-Hodge Carr til leiks heldur lítur út fyrir að hún verði kölluð Kika á næsta ári því hún er kynnt til leika á heimasíðu skólans sem Kika Hodge-Carr.

„Kika kemur með íþróttahæfileika sem passa vel inn í okkar lið. Hún hefur blómstrað í íslenska kerfinu og það þökk sé líkamlegum styrk sínum og fjölhæfni,“ sagði nýr þjálfari hennar hjá Iona Gaels, Billi Chambers.

„Hún er mjög klókur leikmaður í sókninni og mjög duglegur varnarmaður sem með sjá til þess að við höldum áfram að einbeita okkur að varnarleiknum,“ sagði Billi Chambers.

Þórönnu Kika-Hodge Carr var hluti af ungu Íslandsmeistaraliði Keflavíkur vorið 2017 en á síðasta tímabili var hún með 9,4 stig, 5,5 fráköst, 2,7 stoðsendingar og 2,0 stolna bolta að meðaltali í Domino´s deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×