Körfubolti

Borche: Frábært að komast í úrslitakeppni fjórða árið í röð

Sæbjörn Steinke skrifar
Borche kom ÍR í úrslit Íslandsmótsins á síðustu leiktíð og er á leið með liðið í úrslitakeppnina fjórða árið í röð.
Borche kom ÍR í úrslit Íslandsmótsins á síðustu leiktíð og er á leið með liðið í úrslitakeppnina fjórða árið í röð. vísir/daníel

ÍR sigraði í kvöld Þór frá Þorlákshöfn, 90-85, og tryggði ÍR sér í leiðinni sæti í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfubolta. Borche Ilievski, þjálfari ÍR spjallaði við Vísi eftir leik og var að vonum sáttur með úrslit leiksins.

„Tilfinningin er góð. Við vinnum og tryggjum okkur í úrslitakeppnina. Andlega var erfitt að koma inn eftir mánaðarhlé. Við vorum ekki upp á okkar bestu og lendum fjórtán stigum undir í þriðja leikhluta," sagði Borche.

„Við skerptum á varnarleiknum og bættum í baráttuna í lokafjórðungnum. Við fengum á okkur eina villu í þriðja leikhluta og hún kom seint í honum. Ég var ekki ánægður með það. Leikmenn gáfu allt sem þeir áttu í lokafjórðunginn og fjórða tímabilið í röð erum við komnir í úrslitakeppni. Það er það mikilvægasta í þessu."

Borche hélt áfram að tala um afrekið að komast í úrslitakeppnina og sagði hann marga hafa efast um ágæti ÍR-liðsins og sumir hafi gengið svo langt að spá liðinu falli. Borche segir sitt lið þurfa að bæta sig mikið ef það ætli sér einhverja hluti í úrslitakeppnina en hversu mikilvægt var það fyrir Borche að sanna fyrir þeim sem efuðust um ÍR-liðið í upphafi móts að meira væri spunnið í liðið en þeir héldu?

„Þeir höfðu ekki rangt fyrir sér þegar talað var um að margir væru farnir frá því í fyrra. Við byggðum upp nýtt lið og þó það sé ekki fullkomið jafnvægi í því þá gefa allir allt sem þeir eiga í leikina og þess vegna erum við á þessum stað."

„Markmiðið var upphaflega að halda okkur uppi en svo þegar leið á stefndum við á úrslitakeppni, frábært að ná því þegar þrír leikir eru eftir. Nú spilum við upp á stoltið og undirbúum okkur fyrir úrslitakeppnina," sagði Borche að lokum.


Tengdar fréttir

Leik lokið: ÍR - Þór Þ. 90-85 | ÍR öruggt í úrslitakeppni

ÍR vann fimm stiga sigur á Þór Þ. eftir spennandi lokakafla í Seljaskóla í kvöld. Georgi Boyanov var frábær hjá heimamönnum og var það hans framlag auk sterkra tauga undir lok leiks sem skóp sigurinn. ÍR er með sigrinum komið í úrslitakeppnina fjórða árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×